149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er hluti af starfi okkar þingmanna að allir þingflokkar skipa talsmann barna, sem er sá aðili sem leggur sig fram við að hitta þá aðila í samfélaginu sem vinna að réttindum barna. Við ræddum um daginn við umboðsmann barna, sem er ríkisbatterí sem á að sinna frumkvæðisskyldu og slíku varðandi réttindi barna. Í dag fórum við talsmenn barna og hittum UNICEF á Íslandi sem hefur það markmið að vinna að innleiðingu barnasáttmálans.

Í dag er barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna lög á Íslandi, það á að fylgja honum, en brotalamir hafa verið í innleiðingu á þeim lögum, að þau skili sér í því að réttindi barnanna séu raunverulega til staðar og virt.

Eftir að hafa farið í þá vegferð og talað við helstu aðila í samfélaginu sem vinna að réttindum barna sýnist mér að gott svigrúm sé að skapast núna. Það er að skapast mikill meðbyr fyrir því að barnavernd og réttindi barna séu sett í forgang í samfélaginu.

Nú er verið að breyta samkvæmt forsetaúrskurði starfsheiti hæstv. ráðherra Ásmundar Einars Daðasonar. Hann var áður velferðarráðherra en mun verða félags- og barnaverndarráðherra. Fókusinn hjá ráðherranum virðist vera sá að setja barnavernd í forgang. Það er gott. Við skulum fylgjast með því og sjá hvernig það raunverulega hljómar. En þetta er góðs viti og þau sem við töluðum við í dag eru bjartsýn á það. Fylgjumst með því.

Það er mjög áhugavert sem þau eru að gera hjá UNICEF. Ég hvet fólk til að fara á vefsíðuna, sem heitir Barnvæn sveitarfélög. Þar er fjallað um samstarf við sveitarfélögin. Akureyri er búið, Kópavogur er að byrja núna og þeim líst mjög vel á hvernig upplýsingatæknin er sett upp þar til að geta unnið verkefni. En markmiðið er að sveitarfélögin fari á virkan hátt að vinna að innleiðingu réttinda barna, vinna að því á öllum forsendum, vinna að því í fjárlagagerð sveitarfélagsins, þannig að þetta gerist raunverulega. (Forseti hringir.)

Það er svigrúm núna. Ég vona að þingmenn fylgist líka með þessu og að við setjum þetta svolítið í forgang. Það er kominn tími til.