149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Við búum í samfélagi þar sem uppi eru misjafnar trúarskoðanir. Fólk er sannfært á misjafnan hátt út frá trúarlegu sjónarmiði og svokölluðu lífsskoðunarsjónarmiði. Ég get alveg sagt hér að ég er með ýmsar lífsskoðanir sem aðrir gætu reyndar jafnvel uppnefnt trúarlegar í einhverju samhengi. Það er alveg hægt að taka þá umræðu.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að sú umræða eigi ekkert heima hérna, að ég eigi ekkert að fara hér í pontu og tala um sannleiksgildi upprisu Jesú Krists úr Biblíunni eða fara út í þróunarkenninguna á móti þeirri annars fráleitu sögu sem finnst í 1. Mósebók, eldra testamentisins, enda sem betur fer fæstir sem taka þá sögu bókstaflega nú til dags.

Ég er að nefna þetta vegna þess að það vill þó þannig til að við erum með í okkar eigin stjórnarskrá, í 62. gr., ákvæði um hina evangelisku lútersku kirkju sem skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og skuli ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Sömuleiðis er að finna í 2. mgr. 1. gr. í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, með leyfi forseta:

„Skírn í nafni heilagrar þrenningar og skráning í þjóðskrá veitir aðild að þjóðkirkjunni.“

Nú hef ég ekkert að athuga við það að trúfélög og lífsskoðunarfélög setji einhverjar svona pælingar inn í sínar reglur. Mér finnst hins vegar ekki við hæfi að hafa þetta í lögum sem eiga að gilda fyrir alla Íslendinga. Mér finnst ekki í lagi að hafa þetta í stjórnarskrá sem á að gilda fyrir alla Íslendinga. Mér finnst það jafn fáránlegt og ef ég færi hér að rökræða við fólk um einhver trúarkennisetningarleg atriði úr Biblíunni eða Kóraninum eða öðrum trúarritum, Mormónsbók eða hverju einu. Mér finnst þetta ekki vera staðurinn. Mér finnst það ekki vera við hæfi. Mér finnst að við eigum að hætta því.