149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

dagur nýrra kjósenda.

27. mál
[19:35]
Horfa

Flm. (Andrés Ingi Jónsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum erindi hans og lýsi ánægju með að það bíði svo áhugasamar hendur eftir þessu verkefni í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Ég held ég þurfi aðeins að fara yfir sköpunarsögu textans sem þingmaðurinn hnýtur um. Upphaflega hugmyndin var að ég skrifaði texta um að Alþingi ályktaði að opna dyr Alþingis en þá var mér bent á að geranda þyrfti í þingsályktunartillögu og þegar kemur að svona framkvæmd er forseti Alþingis kannski hinn eðlilegi gerandi.

Þegar síðan kemur að því að skipuleggja dagskrá þar sem boðið er upp á fræðslu um lýðræðislega þátttöku er þetta kannski ekki alveg nógu hressileg leið til að skipuleggja dag nýrra kjósenda. Þetta þýðir einfaldlega að forseti beri ábyrgð á að því að allir séu settir til verka og þá erum við ekki bara að tala um samtök ungmenna, sérfræðinga í málefnum innflytjenda heldur líka okkur sjálf, að tryggt verði að stjórnmálaflokkarnir sem starfa hér innan dyra sinni sínu, af því að meginþunginn af þessari dagskrá á að vera borinn uppi af kjörnum fulltrúum. Þetta snýst um það að við erum að bjóða fólki að hitta okkur á vinnustað okkar til þess, eins og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson sagði áðan, að sýna að hér starfar fólk af holdi og blóði og jafnvel með góðar meiningar. Ég treysti nefndinni til að fara yfir þetta og sjá hvort eitthvað þurfi að skerpa á orðalaginu en ég held að meiningin sé alveg skýr.