149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:12]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það er sannarlega hitamál á ferðinni, veiðigjöldin, sem ég kýs að kalla gjöld en ekki skatt. Áður en ég fer að tala um sjálft frumvarpið langar mig að koma að nokkrum staðreyndum. Íslensk sjávarfyrirtæki greiddu út hærri arðgreiðslur í fyrra en þau hafa nokkru sinni gert áður. Það merkilega við það er að hér er því haldið fram að fyrirtækin eigi í vök að verjast og standi höllum fæti, þegar þau sýna 18% hagnað samkvæmt EBITDU sinni. Þá spyr maður sig: Eru þeir ágætu þingmenn sem hafa haldið slíku fram að gefa í skyn að menn kunni ekki að reka fyrirtækin og séu að ausa út arði í fyrirtækjum á fallanda fæti? Mér finnst það ekki hljóma nógu vel.

Hins vegar er það þannig að eigendur sjávarútvegsfyrirtækja fengu alls 14.500 millj. kr. greidda í arð á árinu 2017 vegna frammistöðu ársins 2016.

Frá árinu 2010 hafa arðgreiðslur sjávarútvegsfyrirtækja til eigenda sinna numið 80.300 millj. kr., 80,3 milljörðum kr. Frá hruni hefur eiginfjárstaða sömu fyrirtækja batnað um 341 milljarð kr. og þau eru á fallanda fæti. Hvers lags eiginlega mótsögn er það? Hvað er eiginlega verið að bera á borð fyrir okkur hérna? Hvers lags hagsmunagæsluumræða er þetta? Eigum við ekki að láta tölurnar tala sínu máli og gleðjast yfir því að vel gengur í útgerðinni? Þá er ég að tala um stórútgerðina. Ég er ekki að tala um þá sem berjast í bökkum.

Mig langar að taka umræðu í sambandi við það þegar talað er um að ekki megi mismuna útgerðarfyrirtækjum, ekki megi mismuna aðilum og faktískt eigi allir að sitja við sama borð. Gerðu fyrirtækin það á tímunum þegar verið var að úthluta þeim fyrstu aflaheimildunum, þegar við tókum upp það kerfi sem við búum að mestu við í dag, þegar þeir sem eru stórir í dag fengu á silfurfati upp í 5.000 þorskígildistonn bara af því að þeir höfðu veitt svo flott og fínt árin þrjú á undan? Nýliðun í sjávarútvegi er á allt öðrum stað í dag en þá. Slík fyrirtæki eiga í vök að verjast. Það kostar jafn mikið fyrir þau að kaupa sér báta og tæki og tól til að geta stundað þær veiðar sem þau langar til, til að fá það atvinnufrelsi sem þau sækja í og þau kaupa hvert einasta kíló dýrum dómi. Það er staðreynd.

En við skulum ekki tala um hvernig það var heldur hvernig það er. Það er engin mismunun. Það er ekki hægt að tala um mismunun ef maður ætlar að reyna að koma til móts við þá sem berjast í bökkum og um leið reyna að koma í veg fyrir gegndarlausa samþjöppun örfárra aðila um sjávarauðlindina okkar.

Ég sagði að frá hruni hefði eiginfjárstaða þeirra fyrirtækja sem greiddu út allan þennan arð batnað um 341 milljarð, 341.000 milljónir. Hvers lags tölur eru þetta? Gerum við okkur grein fyrir, virðulegi forseti, hversu gríðarlegt fjármagn við erum að tala um? Eiginfjárstaðan batnaði sem sagt um 41.000 millj. kr. í fyrra. Því hefur hagur sjávarútvegsins vænkast um 421,3 milljarða kr. á tæpum áratug og hann er sagður vera á fallanda fæti.

Það má kannski segja að ég stígi ekki í vitið, en svona vitlaus er ég nú ekki, með fullri virðingu fyrir sjálfri mér á hinu háa Alþingi.

Vert er að taka fram að eiginfjárstaða geirans var neikvæð í lok ársins 2008 en er nú jákvæð um 262.000 millj. kr., 262 milljarða.

Þannig að ég segi: Hvað með þá sem eru að sligast undan þeirri byrði sem veiðigjöldin eru fyrir þá? Ég átti því láni að fagna að fara með atvinnuveganefnd að heimsækja sunnanverða Vestfirði í síðustu viku. Þar sýnist sitt hverjum. Þar heyrum við hver staðan er og hversu slæm hún getur orðið, hvernig veiðigjöldin geta verið of mikil byrði fyrir suma á meðan aðrir geta greitt sér út tugi milljarða í arð af því að þeir taka varla eftir því að þurfa að greiða gjöldin, samt virðast þau vera of há.

Við skulum átta okkur á því að við erum alltaf að tala um sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Þrátt fyrir að í 1. gr. kvótalaga standi að auðlindin sé sameign þjóðarinnar hefur það orkað tvímælis. Við erum að berjast fyrir því að fá þetta ákvæði inn í stjórnarskrá þannig að ekki þurfi að velkjast í vafa um það hver sé hinn raunverulegi eigandi auðlindarinnar í kringum landið.

Nú ætla ég að venda mínu kvæði í kross og segja að fátt sé svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Við erum að fara að fá frumvarp sem á að leysa af núgildandi veiðigjaldafrumvarp sem rennur út um komandi áramót. Hvað sjáum við í frumvarpinu? Það sem er jákvætt er að við ætlum að færa tímann nær rauntíma þegar við miðum við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Venjulega hefur verið litið til tveggja ára í senn, jafnvel þegar fyrirtækin hafa barist í bökkum — og þá ætla ég enn að ítreka að ég er að tala um lítil og meðalstór fyrirtæki. Við þurfum frekar lítið að hjálpa hinum stærri. Það kemur í ljós að með því að leggja slíkar álögur á miðað við hvernig afkoman var fyrir tveimur árum horfumst við ekki í augu við raunveruleikann.

Við búum við þannig tækni í dag að hægt ætti að vera að færa þetta að rauntíma, nánast upp á dag. Það er meira að segja svo í sjávarútveginum í dag að þegar verið er að gera upp hlut sjómanna eru þeir búnir að fá fullnaðargreiðslu í þarnæsta túr á eftir. Fyrir túrinn á undan fá þeir greidd 90% af áætluðu aflaverðmæti og áætluðum launum og þegar gengur í næsta túr á eftir er komin fullnaðargreiðsla og algjörlega séð hvað þessi túr hefur gert.

Það er mikið talað um hvað fyrirtækin eiga bágt og hvað þau borga mikið af gjöldum og hitt og þetta. En talar einhver hér um sjómenn og hvernig þeir eru eina stéttin á Íslandi, sem ég veit um, sem tekur alveg ótrúlegan þátt í rekstri fyrirtækjanna sem hún vinnur hjá? Útgerðin tekur til sín allt upp í 70% fram hjá skiptum, áður en kemur til skipta til sjómanna. Þeir borga umbúðagjöld, olíugjöld. Þeir eru meira að segja látnir taka þátt í nýbyggingu og verðmætasköpunar fyrirtækjanna sem þeir vinna hjá. Það talar enginn um það, nema kannski ég.

Mig langar að benda á það sem stendur í frumvarpinu. Þar erum við með nýja töflu sem gefur út hvaða gjald eigi að taka fyrir hverja fisktegund fyrir sig. Ef við byrjum á að skoða þorskinn frá núgildandi gjaldtöku, sem er 22,98 kr. á kíló, er gert ráð fyrir því að lækka það í 13,80 kr., sem er rétt tæplega 40% lækkun á því sem á að greiða af þorskkílóinu þegar nýju lögin taka gildi.

Við skulum skoða ýsuna. Fyrir ýsukíló 2017–2018 í núgildandi frumvarpi, gert var ráð fyrir að greiða 26,20 kr. fyrir kíló af ýsu en núna 16,15 kr., sem er lækkun upp á 38,4%. Svo er verið að reyna að láta í veðri vaka að ekki sé verið að lækka veiðigjöldin. Það er verið að lækka þau svo um munar. Það er staðreynd.

Pínulítið í lokin, af því að ég þarf ekki að halda miklu lengri ræðu. Ég kem frá litlu sjávarplássi sem ég myndi í dag kalla brothætta byggð. Þar ganga gamlir menn um götur og geta ekki farið á trilluna sína eða gert nokkurn skapaðan hlut. Þeir fara upp á elliheimili og bíða eftir að vera bornir út í boxi, hvort sem þeir hafa heilsu til þess að veiða og draga á færið sitt fisk úr sjó eða ekki. Þetta frábæra kerfi sem gagnast svo frábærlega öllum landsmönnum gagnast einfaldlega ekki nema sumum útvöldum einstaklingum og útgerðinni í landinu. Það er staðreynd.

Ég segi: Eftir að framsalið kom á þá hreinlega þurrkuðust út heilu og hálfu sjávarplássin í landinu, þau þurrkuðust út. Byggðirnar heita í dag brothættar byggðir. Hvað erum við að gera í því?