149. löggjafarþing — 12. fundur,  27. sept. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:35]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum að koma að lokum umræðunnar um þetta mál. Fyrst af öllu vil ég þakka fyrir hana, hún hefur verið mikil og góð. Flestir ræðumenn hafa verið mjög málefnalegir og átt marga góða spretti. Ég ætla að svara hv. síðasta ræðumanni strax: Það er ekki von á öðru máli frá mér í þá veru sem hv. þingmaður nefnir. Hins vegar koma þau atriði sem rætt hefur verið um í allan dag til atvinnuveganefndar þingsins sem tekur þau til umfjöllunar og skoðunar, bæði málin sem hv. þingmaður nefnir.

Stóru línurnar í þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað eru kannski tvær og þær eru athyglisverðar. Annars vegar er það sú lína að um sé að ræða gott kerfi, og til muna betra en það sem við höfum, til að leggja á veiðigjald, að almenn samstaða sé um það en auðvitað mismikil hrifning eins og gengur. Hinn punkturinn er tiltölulega athyglisverður en það er sá þráður sem hefur komið fram í umræðunni hér að nauðsynlegt sé að leggja auðlindagjald á aðrar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir. Það er áhugavert. Sá tónn sem þar er sleginn er tiltölulega samstæður þvert á flokka og í ágætissamhljómi við þá vegferð sem hafin var með skýrslu og tillögum auðlindanefndar árið 2000. Ég fagna því mjög að svo sé, því að það er í raun mjög einkennileg staða að sjávarútvegurinn sé eina atvinnugreinin sem ber þetta þungar byrðar af sérstöku gjaldi vegna nýtingar auðlinda. Það væri fullkomlega eðlilegt og gott að taka umræðuna á breiðari grunni varðandi aðrar atvinnugreinar.

Stærstu ágallarnir á kerfinu sem verið er að ræða verða sniðnir af og er góð samstaða um það. Ég sé enga ástæðu til að draga góðan vilja fólks í efa varðandi það.

Mér þykir sömuleiðis merkileg þróun þegar ræðumenn og þingmenn, þegar verið er að ræða um gjaldtökuna, lenda í svona breiðri umræðu um fiskveiðistjórnarkerfið sjálft, sem er allt önnur umræða. Ég hef lýst yfir fullum vilja til að taka slíka umræðu hvenær sem er og kalla gjarnan eftir tillögum í því efni, sem við getum tekist á um og skoðað, frá þeim sem vilja í grundvallaratriðum breyta því fiskveiðistjórnarkerfi sem Íslendingar hafa byggt upp.

Ef hv. þm. Bergþór Ólason hefði hlýtt á framsöguræðu mína hefði hann kannski nálgast málið með öðrum hætti. Staðreyndin er sú að ef sjávarútvegurinn hefði ekki náð þeirri stöðu árið 2000 sem hann náði þá, þegar hann skilaði þessari góðu afkomu og hefur haldið henni æ síðan, værum við ekki að ræða um álagningu veiðigjalds. Breytingin sem orðið hefur á þessari atvinnugrein á síðustu tveimur áratugum eða svo er gríðarlega mikil og hlutverk hennar í samfélaginu hefur sömuleiðis breyst til mikilla muna.

Í dag er sjávarútvegurinn, eins og hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson lýsti á ráðstefnu Deloitte í gær, brimbrjótur tækniframfara og nýsköpunar, hefur verið það nú í nokkur ár. Það eru ótal hliðarsprotar sem hafa vaxið út frá greininni, meginstofninum sjálfum. Hinum hefðbundnu störfum við veiðar og vinnslu hefur fækkað en til orðið allt önnur störf sem kalla á annarrar gerðar vinnuafl. Til er orðinn allt annar vettvangur fyrir menntað fólk, mannaflaþörf í greininni hefur breyst til mikilla muna. Þegar við ræðum um mikilvægi einstakra fyrirtækja eða útgerðarflokka verðum við að hafa í huga þá breytingu sem orðið hefur á atvinnugreininni. Greinin er allt önnur stærð í íslensku þjóðlífi, atvinnulífi, en áður var. Við getum verið alveg sammála um að nýsköpun, eins og hún er skilgreind í dag — þegar við ræðum stuðning við nýsköpun af stærri gerðinni, og jafnvel líka í smærri gerð — krefst alltaf fjármuna en ekki síður mannauðs. Við Íslendingar eigum sem betur fer nokkrar greinar sem eru kjarnar, klasar eins og kallað er, og sjávarútvegurinn er þar á meðal. Sumir ganga svo langt að fullyrða að sjávarútvegurinn sé einhver öflugasti og mikilvægasti nýsköpunarkjarni eða klasi landsins. Ég hallast að því að það sé mikið rétt ef við horfum til þess sem er að gerast í afleiddum störfum. Sjáum t.d. hvernig atvinnugreinar sem hafa byggst upp í kringum sjávarútveginn eru að vinna ný lönd í Rússlandi um þessar mundir, byggja þar fullkomnustu fiskvinnsluver í veröldinni.

Auðvitað er það sárt þegar aflaheimildir eða störf hverfa frá litlum byggðum. Það er sárt. En við verðum samt sem áður að hafa í huga að samkeppnishæfur sjávarútvegur er forsendan fyrir því að við getum boðið upp á samkeppnishæf lífskjör um landið. Það tvennt fer algjörlega saman. Við verðum með öðrum orðum að setja það í samhengi við stöðu atvinnugreinarinnar þegar við ræðum gjaldtöku, hvort heldur það er á lítil eða stór fyrirtæki. Lífskjör þjóða velta ekki á fjölda starfa, eins og sagt hefur verið, ekki á magni. Þau velta á framleiðni þjóðfélagsins. Sjávarútvegurinn á Íslandi er sú atvinnugrein sem hefur mestu framlegðina af öllum atvinnugreinum á landinu.

Þegar menn tala fyrir því hér að hækka gjaldtökuna, eða að sú gjaldtaka sem við leggjum grunn að hér sé of lág, hljóta þeir að hafa óbilandi trú á því að framleiðnin í sjávarútveginum geti vaxið enn meira. Hvernig mun það gerast með öðrum hætti en þeim að hagræðingin verði meiri, samþjöppunin meiri o.s.frv.? Við erum ekki á þeirri braut.

Ég tel að sú regla sem hér er lagt upp með við útreikning gjaldsins, sem er aðgangsheimild að íslensku fiskimiðunum, sé einföld og gegnsæ. Hún er þannig uppbyggð að okkar hlutlægasta stofnun á sviði álagningar gjalda, sem er ríkisskattstjóri, reiknar út gjaldagrunninn á grundvelli þeirra lögmála, þeirra reglna, sem Alþingi Íslendinga skrifar í lög og setur.

Ég veit ekki hvernig þetta getur orðið miklu betra en hér liggur fyrir, í því gjaldtökuformi sem hér er undir. Ég fagna þeirri samstöðu sem virðist vera um málið í grundvallaratriðum og óska atvinnuveganefnd góðs gengis í því vandasama verki sem fram undan er. Ég vænti góðs samstarfs við nefndina við að búa frumvarpið þannig í hendur þingsins að um það geti orðið mikil og góð samstaða.