149. löggjafarþing — 17. fundur,  10. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[19:12]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér velferðarmál númer eitt, samgöngumálin. Ég held að það sé alveg ljóst að sama hvaða samgönguframkvæmd það er þá er hún til bóta fyrir samfélagið, skapar hagvöxt, stækkar atvinnusvæðin, bætir rekstrarskilyrði fyrirtækja, eykur möguleika fólks á að ferðast á öruggan hátt á milli staða. Ég fékk svar fyrir nokkrum árum frá heilbrigðisráðherra. Í því kom m.a. fram að heildarkostnaður íslensks samfélags á hverju einasta ári vegna umferðarslysa væri um 50 milljarðar.

Samgöngustofa gaf þessa sömu tölu út nú á dögunum, að það væri meðaltalskostnaðar samfélagsins af umferðarslysum.

Ég nefndi annað stórt dæmi á dögunum varðandi hversu miklu máli þetta skipti í efnahagslegu tilliti, þ.e. ef við hefðum ekki stórt samgöngumannvirki eins og Keflavíkurflugvöll, hvað væru þá margir ferðamenn á Íslandi í dag? Hver hefði hjálpað okkur að reisa okkur við eftir hremmingarnar um árið?

Svona mætti lengi telja. Þess vegna skiptir þetta miklu máli.

Við ræðum mikið um sameiningu sveitarfélaga, hagræðingu í ríkisrekstri og annað slíkt. Hvernig ætlum við að gera það án þess að samgöngubætur verði gerðar? Ég held að samgöngur séu aðalforsendan. Það er það sem við heyrum úti um allt land: Hafið góða innviði og góðar samgöngur, þá skulum við sjá um rest, íbúar og sveitarfélög um landið, þá getum við bjargað okkur, byggt upp og skapað aukna velferð í þessu samfélagi.

Við tölum mikið í þessum sal um að auka þurfi fjármuni til löggæslu, heilbrigðisstofnana og heilsugæslu, að almannatryggingarnar þurfi sífellt að fá meiri fjármuni og að þeim fjölgi sem þurfa á þeim að halda. Þannig mun verða áfram. En við getum aðeins dregið úr þessari þörf, ekki uppfyllt hana en dregið aðeins úr henni og kannski stoppað aðeins vöxtinn á þörfinni með því að hafa öflugar og öruggar samgöngur. Það er gríðarlega mikilvægt.

En þrátt fyrir að það sé allt saman vitað eru ekki meiri fjármunir en raun ber vitni í samgönguáætlun og fjármálaáætlun sem allt Alþingi kemur að. Það eru bara ekki settir meiri fjármunir í að mæta þeirri þörf sem fyrir er. Því miður.

Við sjáum að það er samt ekki mikil þolinmæði í samfélaginu gagnvart því að bíða eftir þessum mikilvægu samgöngubótum, þessum nauðsynlegu framkvæmdum. Við sjáum varðandi Keflavíkurflugvöll að þar fara árlega um 10 milljón farþegar og með hverri farþegaþotu sem fer aukalega frá Keflavík eykst flutningsgetan. Við flytjum meiri fisk, meiri vörur frá landinu og til þess með flugvélunum. Fraktin eykst. Það fjölgar bara á ári hverju, hverju einasta ári, starfsfólki, beinum störfum á Keflavíkurflugvelli, um 600 manns.

Þegar um er að ræða veg sem byggður er á kafla fyrir fimm til sex þúsund manns til að komast að þessu mannvirki. Um hann fer allt þetta fólk, allar þessar vörur og allir þessir starfsmenn og þarna er tuttugu og eitthvað þúsund manna byggð. En um veginn fara um 17.000 bílar á dag að meðaltali á vegarkafla sem ber 5.000–6.000 bíla á dag. Við sjáum alveg að við getum ekki beðið í fimmtán ár eftir endurbótum. Það er ekki þolinmæði fyrir því. Það er bara ekki raunhæft.

Hvenær varð sú aukning sem ég var að lýsa? Hún byrjaði líklega á árinu 2013. Síðan þá hefur mesta aukningin orðið. Það eru fimm ár. Þessi áætlun nær til fimm ára. Hvernig verður þetta eftir næstu fimm ár sem tekur að byggja og klára þennan veg?

Við getum tekið svona dæmi hringinn í kringum landið. Fjölgun ferðamanna, fjölgun íbúa á Suðurlandi og Reykjarnesi og Vesturlandi. Það er orðið svo dýrt að byggja og kaupa sér hús á höfuðborgarsvæðinu að það eru allir að flytja í kragasveitarfélögin. Umferðin í gegnum Þorlákshöfn hefur aukist gríðarlega á þessum svæðum samhliða ferðamannastraumi og auknu atvinnulífi, auknum fraktflutningum og annars.

Það gekk mikið á í sumar þegar loka þurfti Ölfusárbrú í nokkra daga vegna viðhalds. Höfum við tíma til að bíða í 15 ár eftir nýrri brú? Ég held ekki. Haldið þið að Vestfirðingar telji sig hafa tíma til að bíða eftir góðum vegi yfir Dynjandisheiði þegar göngin eru tilbúin? Svona gæti ég haldið lengi áfram og nú er ég bara að tala um samgöngurnar. Þarna á ég eftir að tala um allar almenningssamgöngurnar, hvort sem er á landi, í lofti eða á hafi. Allar hafnirnar. Stærsta útflugningsgrein okkar hefur lengi verið sjávarútvegur. Einhvers staðar þarf aflinn að koma að landi. Það er allt eftir. Sjóvarnirnar, ferðirnar sjálfar, styrkirnir, allt í þessu kerfi. Það er svo margt sem er undir þessum lið, samgöngumálum, og er okkur svo mikilvægt.

Ég held að við þurfum verulega að hugsa einhverjar aðrar leiðir. Ég held að það sé hægt að ná töluverðum árangri í þessum verkefnum sem ég er að lýsa hér, bregðast við þeirri óþreyju sem gætir um þessi mál. Þá þyrftum við að bæta 10–15 milljörðum á ári í nýframkvæmdir. Ég sé ekki að við náum að forgangsraða því hér. Við verðum að hugsa einhverjar aðrar leiðir og við þurfum að fjármagna uppbygginguna. Það er erfitt og ég held að við munum ekki ná að gera það bara með þessari samgönguáætlun. Ég hvet þingheim til að koma með okkur í þetta verkefni og vonandi getum við átt gott samtal um það í umhverfis- og samgöngunefnd.

Eins og var rætt aðeins meðal hv. þingmanna á undan mér eru til einhverjar leiðir til þess að vinna á hinum miklu umferðartöfum. Mögulega er hægt að seinka því enn frekar hvenær skólarnir hefjast á morgnana og annað slíkt. Það er hægt að fara í minni aðgerðir til að auka umferðaröryggið og hefur það verið gert með góðum árangri, eins og ég legg mikla áherslu á, eins og að fjármagna umferðaröryggisáætlun sem kemur inn á löggæsluna og fleira sem er í samgönguáætluninni. Með auknu sýnilegu eftirliti lögreglu er hægt að draga úr umferðarslysum, og með því að gera minni háttar breytingar með alls kyns leiðum, laga gatnamót, setja útskot og beygjuvasa og lækka hámarkshraða. Það er fullt af leiðum. Við þurfum að hafa þetta allt saman, þurfum að gera þetta allt. Hvaða tíma tekur það að fara í stóru framkvæmdirnar? Nú er fólksfjölgun og fleiri ferðamenn. Við þurfum að hugsa stórt. Það tvennt verður að fara saman og þannig verðum við að taka á því.

Ég tel að ábyrgð okkar sé mikil í þessum efnum, að takast á við þetta stóra velferðarmál, finna lausnir, ná sátt, komast út úr pólitísku þrasi og sameinast um að finna einhverja raunhæfa leið, hvort sem er í gegnum gjaldtöku eða aðra fjármögnun, til að taka stærri skref í samgöngumálum. Það er svo gríðarlega mikilvægt fyrir umferðaröryggi, sem ég tel að eigi að vera númer eitt, tvö og þrjú.

Ég talaði bara um fjármuni hér. Það er svo erfitt að setja einhverja tölu eða meta tilfinningarnar og allt annað í kringum harmleikinn sem fylgir umferðarslysum. Um 200 manns láta lífið eða slasast alvarlega á hverju einasta ári og 1.000–1.500 manns lenda í umferðaróhöppum. Þið getið ímyndað ykkur almannavarnaástandið í umferðinni. Við því þurfum við að bregðast.

Það er hægt að halda lengi áfram að ræða um samgöngumál. (Forseti hringir.) Miklu lengur en tíu mínútur. En ég vona að við eigum gott samtal um þetta mikilvæga verkefni.