149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og réttindi fatlaðs fólks.

[10:33]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Yfirskrift alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins sem haldinn var í gær var: Geðheilsa ungs fólks á umbrotatímum. Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar í geðheilbrigðismálum síðustu áratugi finnast brotalamir víða og of mörgu ungu fólki á Íslandi líður ekki vel.

Samkvæmt nýjustu rannsóknum embættis landlæknis hafa 7% drengja í framhaldsskólum og 12% stúlkna reynt sjálfsvíg — ekki íhugað það, hæstv. ráðherra, heldur gert tilraun til að enda líf sitt. Þetta eru sennilega í kringum 2.000 ungmenni. Um þriðjungur háskólanema mælist auk þess með þunglyndi og sjálfsvíg eru algengasta dánarorsök karlmanna undir 25 ára aldri á Íslandi.

Öryrkjum með geðgreiningu sem aðalgreiningu fjölgar líka hratt og eru nú um 38% af öllum öryrkjum. Við þurfum að standa með þessu fólki. Unga fólkinu er sífellt sagt að leita sér hjálpar en þá þurfum við líka að tryggja að það sé auðvelt og aðgengilegt og að hjálpin sé sannarlega til staðar.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvaða áform eru uppi varðandi það að gera geðheilbrigðisþjónustu aðgengilegri og ódýrari, sérstaklega fyrir unga fólkið okkar? Ég spyr hvort það hafi verið rannsakað eða greint hvað það myndi spara samfélaginu að niðurgreiða sálfræðiþjónustu, sér í lagi með hliðsjón af hraðri fjölgun öryrkja með geðgreiningar. Að lokum langar mig að heyra hvort hæstv. ráðherra muni beita sér fyrir því að lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði að veruleika eins og hv. þingmaður Samfylkingarinnar, Ágúst Ólafur Ágústsson, hefur lagt fyrir þingið.