149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

samgönguáætlun 2019--2033.

173. mál
[14:28]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það skýrir málið. Þá erum við að tala um sama hlutinn þegar við tölum um að fara í einhvers konar viðbótarfjármögnun.

Ég verð að segja að mér er í sjálfu sér alveg sama hvort kötturinn er hvítur eða svartur á meðan hann veiðir mýs. Sama hvaða nafni við tjáum að nefna það þá er það bara hið besta mál meðan markmiðið er það sama. Ég fagna því að hv. þingmaður og reyndar miklu fleiri þingmenn hafi áttað sig á því að auðvitað blasir myndin skýrari við núna um getu ríkissjóðs á næstu árum þegar samgönguáætlun liggur fyrir. Ég talaði fyrir ákveðnum hugmyndum í ræðu minni í gær sem snúa í raun að sama markmiði og hv. þingmaður talar fyrir. Ég hlakka til þess að við í nefndinni tökum umræðu um þetta.

Eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra á fundi nefndarinnar í morgun þar sem hann fór yfir þingmálaskrá sína er hann mjög jákvæður gagnvart þessu ef þverpólitísk eða víðtækari samvinna og samstarf tekst um þetta mál þvert á flokka. Umræðan hefur breyst eftir því sem myndin hefur orðið skýrari, ekki bara í þinginu heldur almennt í samfélaginu. Ég held að það sé tækifæri til þess að botna hana núna við þá vinnu sem verður við samgönguáætlun og grípa til ráðstafana fyrr en síðar á grundvelli þessara hugmynda og láta þannig hendur standa fram úr ermum vegna þess að væntingarnar eru miklar.