149. löggjafarþing — 18. fundur,  11. okt. 2018.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

158. mál
[16:23]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka áhuga og umræðu um þetta mál. Ég tel þetta mjög mikilvægt mál, skipta miklu. Hins vegar, til þess að svara spurningum hv. þm. Jóns Þórs Þorvaldssonar, þá tekur það ekki til dreifikostnaðar á raforku eða einhvers slíks. Þótt auðvitað megi tala sig inn á það að sá hluti vörunnar sé notaður til þess að framleiða fullunna vöru höfum við verið með aðrar leiðir til þess. Þetta hefur meira fjallað um það. Ég held að ég geti fullyrt að það sé ekki þannig.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að þessi svæði sem hann nefndi, annars vegar í Borgarfirði og hins vegar á Suðurlandi, í Árnessýslu, eru auðvitað helstu ylræktarsvæði landsins. Kannski er þessi flutningsjöfnun meira til þess hugsuð að jafna aðstöðumuninn við þau svæði; ætli við gætum ekki verið að tala um að á þessum svæðum sé 80% eða jafnvel 90% af ylræktinni í landinu, ef ég þekki það rétt. Það að fara úr 245 km, sem er lágmarkslengdin í dag, í 150 km er auðvitað umtalsverð breyting og mun stækka svæðin og taka inn svæði, eins og ég nefndi, sem eru lengra frá markaðssvæðunum.

En þetta eru auðvitað einhver af þeim verkefnum sem nefndin þarf að skoða. Það þarf að skoða rökstuðninginn á bak við þessar vegalengdir frekar en einhverjar aðrar. Þar með lýk ég máli mínu um þetta mál.