149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:01]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil hefja ræðuna á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Willum Þór Þórssyni, fyrir umræðuna. Íslenskur landbúnaður er okkur mikilvægur um svo margt. Það er ekki sjálfgefið að halda úti landbúnaði á þessari eyju norður í ballarhafi og þess vegna vilja sumir meina að það sé eðlilegt að við séum með sem mestan ef ekki mesta stuðning við landbúnað enda landið fámennt og harðbýlt. En skilar þessi stuðningur sér til bænda? Skilar þessi stuðningur sér til íslenskra neytenda? Svo virðist því miður ekki vera. Þrátt fyrir stöðuga aukningu á sölu á kindakjöti hafa sauðfjárbændur það margir hreinlega skítt, afsakið orðbragðið, frú forseti. Í ofanálag framleiðum við um þriðjungi meira af kindakjöti en við neytum sjálf. Þá myndi maður halda að það væru augljós tækifæri til útflutnings. Því miður er staðreyndin hins vegar sú að ríkið sem leggur töluverða fjármuni í markaðssetningu lambakjöts erlendis, einkum á Bandaríkjamarkaði, skemmir fyrir sölu íslenskra afurða á sama markaði með hinni hendinni með því að heimila hvalveiðar. Þar er augljóslega verið að kasta fyrir róða meiri hagsmunum fyrir minni.

Frú forseti. Þegar við köfum ofan í málefni landbúnaðar á Íslandi er alls ekki ljóst hver stefna Íslands er í landbúnaðarmálum og hljótum við að kalla eftir gerð slíkrar stefnu. Við þurfum að horfa á íslenskan landbúnað í heild og hætta að horfa alltaf á einstakar greinar. Hvernig viljum við haga landbúnaði á Íslandi? Hvað viljum við framleiða mikið? Hvernig viljum við framleiða það? Hvernig afurðir viljum við? Hvernig tryggjum við hagsmuni neytenda? Hvernig aukum við nýsköpun? Viljum við áframhaldandi lausagöngu? Er sjálfsagt mál að auka stöðugt við framleiðslu? Hvernig stuðlum við að orkuskiptum í landbúnaði? Og hvernig minnkum við kolefnisspor landbúnaðarins?

Frú forseti. Við þurfum að svara þessum spurningum. Við þurfum að móta nýja stefnu í landbúnaðarmálum.