149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

stuðningur við útgáfu bóka á íslensku.

176. mál
[18:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhugavert spjall, málið er bráðáhugavert. Til þess að taka þann punkt sem hv. þingmaður endaði á er alveg rétt að tónlistarveitur hafa breytt því verulega hvað tónlistarmenn fá greitt fyrir hið útgefna efni. Tekjumynstur jafnvel heimsfrægra tónlistarmanna hefur algjörlega breyst, áður lifðu viðkomandi listamenn af plötuútgáfu en nú lifa þeir af tónleikum. Ég veit ekki hvort það þýðir að rithöfundar lifi af upplestri í framtíðinni, ég skal ekki alveg segja til um það, en alveg ljóst er að mjög margt breytist í því.

Það er rétt sem hv. þingmaður sagði og ég ætla ekki að þykjast svo alvitur og alsjáandi að ætla bókinni algjöran dauða, ég held að svo sé alls ekki. Ég held að bókin verði áfram gjöf og að áfram verði fjöldi einstaklinga sem vilji hafa bókina í höndunum, en þeir munu vafalítið vera tilfinnanlega færri en þeir hafa verið.

Horfum á aðra ágæta þróun í tónlistinni, þegar vínylplatan gaf upp öndina, eða svo gott sem, fyrir einum þremur áratugum síðan og ný tækni kom fram á sjónarsviðið. Sú tækni er eiginlega horfin og vínylplatan komin til baka, vissulega í miklu minna upplagi þó en áður þekktist.

Svona er þróunin, við sjáum hana aldrei fyrir en það eru þeir kraftar sem í raun ráða för á endanum. Við getum hent steinum í lækinn en ekki er víst að það breyti árfarveginum mikið. Ég hygg að þannig sé með þetta ágæta mál.