149. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2018.

ársreikningar.

139. mál
[18:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum, á þskj. 139, mál nr. 139.

Meginbreytingar þær sem lagðar eru til í frumvarpinu eru breytingar á 7. og 109. gr. laga um ársreikninga. Þar er opnað fyrir þann möguleika að öll félög sem eru með mikilsverða hagsmuni vegna erlendrar fjármögnunar eða viðskiptasambanda geti samið ársreikninga á ensku en þá skuli hann þýddur á íslensku og birtur hjá ársreikningaskrá bæði á ensku og íslensku.

Mikilvægt er að ársreikningar séu birtir hjá ársreikningaskrá þannig að viðskiptalífið og þeir sem reiða sig á fjárhagsupplýsingar félaga hafi greiðan aðgang að þeim og að upplýsingarnar séu á tungumáli sem meginþorri þjóðarinnar skilur.

Frumvarpið er lagt fram í þeim tilgangi að skýra kröfur um texta ársreiknings, bæði þeim sem saminn er hjá félagi og einnig þeim sem birtur er hjá ársreikningaskrá.

Ábendingar varðandi skyldu fyrirtækja til að semja og birta ársreikninga á íslensku hafa borist frá félögum með mikil umsvif erlendis og starfrækslu gjaldmiðils í erlendri mynt, en þau höfðu áður heimild til að semja ársreikning á ensku. Einnig hafa borist ábendingar frá Viðskiptaráði Íslands, reikningsskilaráði og Félagi löggiltra endurskoðenda þar sem hvatt er til breytinga á ákvæði 7. gr. núgildandi laga þar sem það er talið íþyngjandi fyrir íslensk félög sem gera upp í erlendum gjaldmiðlum, starfa í alþjóðlegu umhverfi eða hafa erlenda stjórnarmenn. Að sama skapi er mikilvægt að standa vörð um íslenska tungu. Við erum nú að setja nokkur hundruð milljónir í það að reyna að verja hana, vissulega með tilliti til tækniframfara og annars slíks, en það skiptir máli.

Eins og fram kemur í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, er þjóðtungan sameiginlegt mál landsmanna og stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Þess vegna er mikilvægt að ársreikningar séu birtir í ársreikningaskrá þannig að viðskiptalífið og þeir sem reiða sig á þær upplýsingar hafi greiðan aðgang að þeim og þær séu á tungumáli sem meginþorri þjóðarinnar skilur. Því er mikilvægt að hægt sé að nálgast ársreikninga félaga á íslensku. Það má þó ekki hindra að félög geti starfað með góðu móti í alþjóðlegu umhverfi og notast við ensku við gerð ársreikninga. Þess vegna er breytingin hér lögð til.

Í sáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að frjáls og opin alþjóðaviðskipti séu til hagsbóta fyrir lítil opin hagkerfi og auki velsæld þeirra. Breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er í samræmi við það að gera viðskiptaumhverfi félaga í alþjóðaviðskiptum betra. Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda fyrir reikningsár sem hefst 1. janúar 2017 eða síðar.

Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki gert ráð fyrir að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs, en vissulega munu fyrirtæki þurfa að leggja út fyrir kostnaði til þess að þýða ársreikning ef hann er unninn á ensku. Ég geri mér fulla grein fyrir því.

Hæstv. forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.