149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:10]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nú hefur hæstv. forsætisráðherra ekki hlustað nægilega vel á ræðu mína því að ég sagði ekki að almenningur í Evrópu hefði ekki lent í vanda. En hann var með öðrum hætti. Hann var fyrst og fremst vegna atvinnumissis. Hann var ekki vegna gjaldeyriskreppu eins og hér á landi.

Það voru vissulega vandamál sem fylgdu kreppunni í Evrópu, það þekkjum við öll, en til viðbótar þurfti íslenskur almenningur að glíma við þessar séríslensku aðstæður, veika krónu. Það hefði ég haldið að væri augljóst mál.

En varðandi gjaldmiðil yfir höfuð skiptir auðvitað máli fyrir evrusvæðið að allar þjóðirnar leitist við að haga sér þannig að gæta að því að gjaldmiðillinn sveiflist ekki og að þjóðirnar (Forseti hringir.) lendi ekki í gjaldeyrisvanda. Hvort það á að gera með einhverjum alríkisreglum, (Forseti hringir.) sem ég held að hæstv. forsætisráðherra sé að leita (Forseti hringir.) eftir — ég held að hægt sé að gera það (Forseti hringir.) með samvinnu ríkjanna án þess að evrusvæðið (Forseti hringir.) verði eitt stórt ríki.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir ræðumenn á að halda ræðutíma, annars fer bjallan af stað og það skemmir fyrir þeim sem heima sitja.)