149. löggjafarþing — 22. fundur,  18. okt. 2018.

framtíð íslenskrar peningastefnu, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Mér fannst hún mjög fín þó að ég sé ekki endilega sammála öllu sem þar kom fram. Ég hef áður heyrt hv. þingmann halda ágætisræður um þær röksemdir sem hann hefur um inngöngu í Evrópusambandið. Ég virði þá skoðun hans og er alveg til í að eiga orðastað við hann um þau mál einhvern tímann.

Nú langaði mig til að spyrja hv. þingmann út í þessa skýrslu og þá ekki endilega það sem hann myndi vilja hafa séð í skýrslunni heldur þær tillögur sem þar eru lagðar fram. Ef við gefum okkur að við séum ekki að fara að taka upp evru — ekki sé meiri hluti fyrir því, hvað sem okkur finnst um það, hvort sem er hér í þessum þingsal eða í samfélaginu — heldur ætlum að búa við það að vera ekki með evru, hvað finnst hv. þingmanni þá um þær tillögur sem hér eru?

Komið var inn á tíu lærdóma úr peningasögunni í þessari skýrslu. En það eru líka 11 tillögur sem lagðar eru fram og ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði ekki um þær. Hv. þingmaður kom með líkinguna um að við kæmumst ekki yfir mýrina þó að sett yrðu ný dekk undir bílinn. Nú horfumst við kannski í augu við það að við erum að fara að setja ný dekk undir bílinn, hvaða umgang ætlar hv. þingmaður að velja?