149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skattsvik.

[13:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Panama-skjölin sýndu að Íslendingar áttu heimsmet í að nýta sér þau skattaskjól. Sú uppljóstrun kallaði skömm yfir alla þjóðina enda skattaskjól fyrst og fremst notuð til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum.

Þann 9. október minnti fréttaskýringaþátturinn Kveikur okkur á að peningar streymdu skattfrjálst út úr íslenska efnahagskerfinu fyrir hrun. Á meðal eigenda aflandsfélaga eru aðilar sem fengu háar fjárhæðir afskrifaðar í kjölfar falls bankanna, haustið 2008. Dæmi eru einnig um að kröfur í þrotabú bankanna hafi verið vistaðar í aflandsfélögum.

Háar fjárhæðir hafa komið til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og eigendur fengið þar verulegan gróða. Aðeins opinber rannsókn getur aflétt þeirri leynd sem yfir þeirri leið ríkir.

Ég vil því spyrja hvort hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra telji ekki tímabært að bera þessa hópa saman, þá sem fengu háar fjárhæðir afskrifaðar frá bönkunum, kröfur aflandsfélaga í þrotabú bankanna og þátttöku í fjárfestingarleið Seðlabankans eða gjaldeyrisútboðum.

Ef það yrði gert fengjust svör við því hvort hér sé um einhverja sömu aðila að ræða. Svo virðist sem í einhverjum tilvikum hafi eignarhaldsfélög gagngert verið stofnuð til að skuldsetja þau. Lánsféð hafi síðan verið fært til aflandsfélaga án þess að um nokkur viðskipti hafi í raun verið að ræða og jafnvel reynt að hylja slóðina með flóknum millifærslum. Það er mögulegt að rekja þessi viðskipti með opinberri rannsókn og Panama-skjölin hjálpa til við það.

Er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ekki sammála mér um að þessi mál verði að upplýsa og að gera verði skattrannsóknarstjóra kleift að rannsaka þessi mál fljótt og vel? Verðum við ekki að vera viss um að fjárfestingarleið Seðlabankans hafi ekki verið misnotuð með illa fengnu fé?