149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

framtíð og efling íslenska sveitarstjórnarstigsins.

[14:35]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp á þingi til umræðu. Við ræðum mikið um skýrslu verkefnisstjórnar sem skilaði af sér í júlí 2017 og hefur komið hér til tals þar sem leitað er leiða til að styrkja sveitarstjórnarstigið.

Það er mikilvægt að sveitarfélögin séu nægilega burðug til að sinna lögbundnu hlutverki sínu á hverjum tíma. Það hefur e.t.v. hamlað framþróun hversu sum þeirra eru smá. Þá aukast auðvitað sífellt kröfur um að stjórnsýslan hafi burði til að vinna faglega að verkefnum sínum sem eru oft á tíðum mjög flókin og ekki síður halda utan um fjármál sveitarfélaganna. En það er reyndar alls ekki bundið stærð hvernig það tekst til, eins og dæmin sanna.

Margt hefur áunnist undanfarin ár varðandi sameiningar sveitarfélaga. Þau voru tæplega 230 árið 1950, voru komin í 204 1990 og 124 árið 2000 og nú eru þau 72, þannig að það hefur ýmislegt áunnist. Þetta er náttúrlega allt á réttri leið.

Mig langar til að nota tíma minn í að koma með nokkrar spurningar til hæstv. ráðherra, t.d. um áhrif íbúa í fjölkjarnasveitarfélögum eða einstökum hverfum í stærri sveitarfélögum. Hvert er viðhorf hans hvað varðar aðkomu þeirra að því að kjósa sér sérstakan fulltrúa í sveitarstjórnir sem minnst er á í skýrslunni? Hver er afstaða ráðherra til lýðræðislegrar þátttöku íbúa í ákvarðanatöku í auknum mæli sem hefur mikið verið rætt um en lítið farið fyrir í sveitarfélögunum? Nýlega, í sumar eða í vor, var kosning í Árborg. Hvert er viðhorf ráðherra gagnvart auknu íbúalýðræði?

Í skýrslunni koma fram ábendingar eða hugleiðingar um það að þetta geti fremur orðið undirrót sundrungar innan sveitarfélaga og ekkert mælt sérstaklega með því. Ég ætlaði að tala um tekjuskiptingu, en það bíður betri tíma. — Takk fyrir.