149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

skráning og mat fasteigna.

212. mál
[16:28]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, með síðari breytingum. Frumvarpið felur í sér að við lögin er bætt ítarlegri skilgreiningu á heimildum Þjóðskrár Íslands til aðgangs að gögnum við ákvörðun matsverðs fasteigna.

Með lögum nr. 83/2008, um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, var Þjóðskrá Íslands heimilað að beita svokallaðri tekjuaðferð við fasteignamat þegar gangverð fasteigna er ekki þekkt. Þjóðskrá Íslands heldur leiguverðsskrá sem stuðst er við í þessum tilgangi. Sú skrá þjónar ekki hlutverki sínu til fulls þar sem ekki er fyrir hendi lagaskylda til þinglýsingar á leigusamningum og ekki tryggt að allir fasteignaeigendur láti stofnuninni í té upplýsingar um leigu eða leigutekjur.

Embætti ríkisskattstjóra berast leigusamningar á grundvelli reglugerðar nr. 577/1989 sem heimilar lögaðilum að fá endurgreiddan virðisaukaskatt af byggingu og endurbótum húsnæðis. Þjóðskrá Íslands hefur þegar á grundvelli 3. málsliðar 3. mgr. 22. gr. laga um skráningu og mat fasteigna aðgang að skattframtölum til að sannreyna upplýsingar um fasteignir eða afla slíkra upplýsinga. Óvissa hefur hins vegar verið um það hvort þessi heimild taki einnig til fylgigagna skattframtala, svo sem áðurnefndra leigusamninga. Frumvarpið kveður á um að Þjóðskrá Íslands verði veitt skýr heimild til aðgangs að þessum gögnum, en það mun bæta grundvöll fasteignamats með tekjuaðferð og stuðla að sem réttlátastri skráningu og samræmi við framkvæmd fasteignamats. Það skal hér sérstaklega tekið fram að við útreikning fasteignamats með tekjuaðferðinni er ekki eingöngu tekið mið af leigusamningum heldur einnig öðrum þáttum, svo sem staðsetningu o.fl.

Frumvarpið var unnið í ráðuneytinu í samvinnu við Þjóðskrá Íslands. Það var birt á vef ráðuneytisins til umsagnar og bárust tvær athugasemdir, annars vegar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem fagnaði frumvarpinu og hins vegar frá Samtökum atvinnulífsins sem gerðu athugasemdir við framkvæmd fasteignamats með notkun tekjuaðferðar á verslunar- og atvinnuhúsnæði. Var það mat Samtaka atvinnulífsins að notkun tekjuaðferðar samræmdist ekki 27. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, og að framkvæmdin færi gegn 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Ráðuneytið getur ekki fallist á þessar röksemdir Samtaka atvinnulífsins, m.a. með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 477/2015 og álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9024/2016.

Virðulegur forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.