149. löggjafarþing — 23. fundur,  23. okt. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru.

222. mál
[21:27]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Sagan er sú að ég keypti einfaldlega ekki það að þessi endurskoðun hefði farið af stað í maí og ég var að reyna að fá fram einhvers konar haldbær gögn fyrir því að það hefði raunverulega byrjað í maí, fyrir tíð fólksins í #höfumhátt, áður en þau fóru að vekja máls á þessu. Það tókst ekki betur til en svo. En það er liðin tíð.

Hvað varðar upplýsingabeiðnir frá brotaþola sem hæstv. ráðherra vísar hér í þá fannst mér í fyrsta lagi ráðherra víkja að því í sinni ræðu að brotaþolar hefðu einhvern veginn verið að leyna þessum fundi með ráðherra, að þeir hafi kosið viljandi að segja ekki frá fundinum og það hafi væntanlega eitthvað vakað fyrir þeim. Var hæstv. ráðherra að segja það? Er ráðherra að halda því fram að brotaþolar hafi leynt þessum fundi sem ráðherra boðaði þá á?

Í öðru lagi langaði mig að spyrja hvort hæstv. ráðherra hafi verið beðinn um það á þessum fundi að afhenda upplýsingar um meðmælendur Roberts Downeys og annarra sem fengu uppreist æru af fulltrúa brotaþola. Var ráðherra beðinn um það þá? Ef hann var beðinn um það þá, var það ekki nóg? Telst ekki nógu formlegt fyrir hæstv. ráðherra til að hugsa sér að verða við því? Þarf úrskurðarnefnd upplýsingamála til að ráðherra veiti brotaþolum upplýsingar um uppreist æru brotamanns í máli þeirra?