149. löggjafarþing — 24. fundur,  24. okt. 2018.

staða iðnnáms.

[14:45]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda og ráðherra fyrir að ræða þetta mjög svo brýna málefni og gefa okkur þannig tækifæri til að taka þátt í að ræða hvernig við getum eflt iðnnám. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er að finna áform um að efla iðn-, verk- og starfsnám í þágu öflugra samfélags og til að takast á við þær samfélagsbreytingar sem fram undan eru á vinnumarkaði. Hvernig má efla iðnnám? Einfalda þarf skipulag náms og auka og styrkja aðgengi ungmenna að verk- og starfsnámi og gera það eftirsóknarverðara. Það þarf að vera auðvelt að ganga þessa braut.

Ég get líka tekið undir orð hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarssonar um að iðnmeistarakerfið hafi gengið sér til húðar og þurfi að endurskoða. Þá þarf aðgengi að iðnnámi að vera jafnt og gott alls staðar á landinu og því þarf að styrkja skóla um allt land. Þar er einmitt erfitt um vik þar sem dýrara er að bjóða upp á iðnnám, t.d. vegna húsnæðis, kennslu og tækjakosts og skólastjórnendur hafa kannski ekki sama hvata til að bjóða fram slíkt nám.

Það er alveg rétt sem málshefjandi, hv. þm. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nefndi í ræðu sinni að krakkarnir verða að þekkja til hlutanna til að geta síðar meir valið að nema iðnir. Þeir verða að þekkja og kannast við möguleikana. Þetta er kannski hluti af brottfallinu. Og þetta er kannski möguleikinn til að koma í veg fyrir brottfallið, að benda þeim krökkum sem finna sig ekki í skólunum á þessa leið og opna leiðina og auðvelda hana. Þarf ekki líka að bjóða krökkunum að græja meira og gera meira með efni í grunnskólunum?

Í þessum málefnum spilar margt inn í. Bóknámið er sú leið sem langflesta dreymir um að fara, jafnvel þótt hæfileikarnir liggi allt annars staðar. Það þarf að gera iðnnáminu jafn hátt undir höfði og bóknáminu.