149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

geðheilbrigðismál og framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra.

[16:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til að þakka fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur átt sér stað. Ég vil minna hv. þingmenn á það að tilefnið er í raun og veru sú ákvörðun þeirrar sem hér stendur að leggja fram skýrslu um framkvæmd geðheilbrigðisáætlunar vegna þess að ég tel afar mikilvægt að eiga þetta samtal við þingið í áætluninni miðri, þ.e. ekki bara þegar henni er lokið heldur á tímabilinu miðju, af því að áætlunin kemur frá Alþingi og það er gagnvart Alþingi sem ráðherrann á hverjum tíma þarf að standa skil á því að ákvarðanir Alþingis hafi náð fram að ganga. Við erum núna í miðjum klíðum, eins og hér var bent á, og þá er auðvitað full ástæða til að fara fyrr en síðar að huga að næstu skrefum og hvað það er sem tekur við að aflokinni þessari áætlun.

Margir þingmenn hafa talað um mikilvægi þess að sporna gegn fordómum og að við horfumst í augu við það að geðheilbrigðismál eru alvöruheilbrigðismál og við eigum að ræða um þetta eins og hvern annan þátt heilbrigðisþjónustunnar og að andleg og líkamleg heilsa hangir saman.

Margir hafa nefnt mikilvægi þess að við þurfum að tala saman þvert á kerfin. Við erum að gera það að mörgu leyti, bæði ríki og sveitarfélög. Ég er í formlegu samstarfi við menntamálaráðherra varðandi sálfræðiþjónustu í skólakerfinu og vil nota tækifærið til að segja það, vegna þess að hér hefur verið svona frekar sá tónn að verið er að hnýta í það heilbrigðiskerfi sem við höfum, að það er verið að vinna gríðarlega gott starf úti um allt kerfið, í heilsugæslunni, hjá heilbrigðisstofnunum úti um allt land, hjá sjálfstætt starfandi aðilum og Landspítalanum, þannig að því sé öllu haldið til haga.

Því miður þarf ég að leiðrétta hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem hélt því fram varðandi geðteymin að það væri bara eitt teymi sem hafi bæst við. Við erum komin með teymi í Reykjavík austur, vestur, geðteymi á Vestfjörðum og á Austfjörðum og verið er að stofna geðteymi á Norðurlandi. Við erum að fullu með mannað miðað við geðheilbrigðisáætlun, einn sálfræðing fyrir hverja 9.000 íbúa fyrir lok ársins 2019. Það eru 690 nýjar milljónir í geðheilbrigðismálin á næsta ári. Við þurfum auðvitað að gera betur, og ekki síst að auka samráð við notendur. (Forseti hringir.) Við erum meðvituð um það.

Virðulegi forseti. Ég tel (Forseti hringir.) mikilvægt að þingið verði upplýst um það frá degi til dags, frá mánuði til mánaðar, hvað við erum að gera í málaflokknum vegna þess að í þessum málaflokki er ekkert ríki í heiminum í raun og veru að standa sig eins og ætti að gera.