149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

umboðsmaður Alþingis.

235. mál
[16:47]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að heyra. Varðandi stjórnsýslu Alþingis er haft eftirlit og aðhald með henni. Það er hæstv. forseti Alþingis, sem er lýðræðislega kjörinn fulltrúi, sem gerir það. Það er einmitt sá aðili sem hefur slíkt eftirlit, auk varaforsetanna, m.a. mín. Við höfum eftirlitshlutverk gagnvart stjórnsýslunni.

Stjórnsýslan hefur meira að segja bæði eftirlit og innra eftirlit með dómstólunum, með dómurunum sjálfum. Það kemur fram í öllum grunnreglum varðandi réttarríki að slíkt eftirlit þarf að hafa, ég hef legið yfir því og það á við hvort sem það eru grunnreglur frá Evrópuráðsþinginu eða OECD eða annað. Það sem eftir stendur er hins vegar að skrifstofa dómstólanna sjálf getur brotið bæði á borgurunum og á dómurunum án þess að sæta ábyrgð fyrir það. Við ætlum að hafa virkt aðhald og hún er ekki það sem er kallað „accountable“ á ensku, ábyrgð er íslenska orðið en „accountability“ er svolítið víðtækara orð, það vantar held ég íslenskt orð yfir til að ná yfir það. En það þýðir að hægt sé að fylgjast með, upplýsa um möguleg brot, hafa virkt eftirlit, bregðast við og færa til betri vegar, sama hvort það er með einhvers konar agavaldi eða öðru.

Þannig að ég er bjartsýnn. Ég trúi ekki öðru en að hæstv. þingforseti muni stíga svolítið inn eftir allar þessar ábendingar þannig að við náum að klára púslið. Það getur ekki verið þannig að stjórnsýsla dómstólanna, skrifstofa dómstólanna, geti brotið á dómurunum sjálfum, sem þýðir að það er ekkert sjálfstætt dómsvald. Það er einmitt það sem fyrrverandi dómarar hafa bent okkur á.