149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:33]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða yfirferð yfir málið og veit að hann talar af nokkurri þekkingu um málaflokkinn eðli máls samkvæmt. Það sem ég velti oft fyrir mér er að í fyrsta lagi ber að hafa í huga að hér er ekki verið að tala um að breyta beinum stuðningi við landbúnað með neinum hætti. Hér er ekki verið að tala um að breyta tollvernd greinarinnar með neinum hætti, heldur er fyrst og fremst verið að horfa til þess hvort hægt sé að liðka fyrir samkeppni innan greinarinnar hér á landi til hagsbóta bæði fyrir bændur sjálfa og neytendur, að veita bændum sjálfum svigrúm. Eins og kom fram í umræðunni áðan, vissulega rétt, er þar með talið verið að auka frelsi bænda til að semja um málefni sín sjálfir og velja hvort og þá hvaða samtökum þeir tilheyri, alls ekki er verið að leggja slík samtök niður enda væri alveg fjarstæðukennt að ætla með einhverjum hætti að ráðast gegn landbúnaðarsamtökum.

Í fyrra andsvari hef ég áhuga á að heyra sjónarmið hv. þingmanns þegar kemur að samkeppni við innflutning að einhverju marki. Nú er fjöldinn allur af atvinnugreinum sem starfar jafnvel í fullkomlega opinni og frjálsri samkeppni við sér langtum stærri fyrirtæki, líkt og hv. þingmaður kom inn á varðandi mjólkurframleiðsluna, t.d. erlendis, en virðast engu að síður geta lifað ágætu lífi. Má nefna drykkjarvöruframleiðendur hér heima fyrir sem keppa í beinni samkeppni við alþjóðlega risa, sem eru jafnvel enn stærri en þeir mjólkurframleiðendur sem vísað var til.

Óttast hv. þingmaður að íslenskur landbúnaður með sínar góðu vörur, sem ég held að við séum báðir sammála um að sé vissulega fyrir hendi, og þá vernd sem er þegar fyrir, geti ekki keppt við þá, eins og með ostaframleiðslu og annað innan þeirra takmarkana sem eru þegar í dag um innflutning á slíkum vörum?