149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[20:35]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir spurningarnar. Óttast ég? Ég óttast í sjálfu sér ekki samkeppni, þ.e. ef fyrirtækin sem starfa á þessum markaði hér hafa bolmagn og getu til að bjóða neytendum hágæðavöru á góðu verði. Til að fyrirtæki í svona geira geti að mínu viti stundað ákveðna vöruþróun, markaðsstarf og þess háttar þarf að vera ákveðinn slagkraftur. Við höfum stundum haft það í flimtingum í þeim geira sem ég starfa alla jafna í að ef mjólkuriðnaðurinn væri í svipaðri stöðu og kjötiðnaðurinn í dag værum við líklega bara með bláa mjólk og skyr í smjörpappír. Hv. þingmaður skilur vonandi hvað ég á við.

Ég tel mjög mikilvægt í þessu samhengi, því að ég held að við bændur heilt yfir óttumst ekki samkeppni, að við viljum geta hagrætt í fyrirtækinu sem við erum að reka. Það liggur alveg á borðinu þegar við komum að kjötgeiranum að þar verður að hagræða. Við verðum að gera enn betur til að takast á við t.d. innflutning á kjöti.