149. löggjafarþing — 25. fundur,  25. okt. 2018.

búvörulög og búnaðarlög.

17. mál
[21:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er að mörgu leyti laukrétt hjá hv. þingmanni, það er kannski það grátlega í þessu. Þessi 29% lækkun sem við töluðum um kemur í kjölfarið á annarri 10% lækkun frá því í hittiðfyrra. Þessi verðlækkun var ekki á vegum opinberrar nefndar um heildsöluverð á lambakjöti, alls ekki. Þetta voru bara sláturleyfishafar sem tóku sig saman og það sem er kannski grátlegt í því efni er að í raun og veru eru samtök bænda eigendur þessara afurðastöðva. Það virðist einhvern veginn vera þannig að bændur hafi ekki náð þar þeim áhrifum sem eignarhald þeirra á þessum sömu afurðastöðvum ætti að bjóða upp á.

Í sjálfu sér leiðist mér að tala svona því að okkur hættir alltaf til að tala um bændur eins og þeir séu einhverjir minni háttar menn í sínum viðskiptum, sem þeir eru alls ekki. Þarna þykir mér bara ójafnt gefið. Þess vegna held ég að við þurfum að taka þetta alla leið því að ég fer náttúrlega ekki ofan af því að við erum búin að einangra samkeppni þetta framarlega í virðiskeðjunni, eins og við segjum, en sá sem er síðastur í röðinni, þ.e. kaupmaðurinn, er í þetta þröngri eigu og með það stóra ofurmarkaðsvald sem þessir menn eða þessar keðjur hafa.

Talandi um það hvort mér þyki óeðlilegt að lífeyrissjóðirnir eigi þetta eru þeir náttúrlega í beinni samkeppni við fyrirtæki í einkaeigu. Ég get nefnt eina verslun af handahófi sem er Fjarðarkaup í Hafnarfirði, ég gæti líka nefnt Melabúðina. Lífeyrissjóðirnir eiga ekki neitt þar. Þeir eru náttúrlega í harðri samkeppni við þessa kaupmenn, alvörukaupmenn. Ég held því að það sé fullkomlega þess virði að taka samkeppnislöggjöfina til bæna í þessu efni til að tryggja að það sé dreifð eignaraðild á markaði og jafnvel að búta niður stærstu fyrirtækin til að klessa niður um leið verð til neytenda.