149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

póstþjónusta.

270. mál
[15:23]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um póstþjónustu. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002, og er megininntak þess afnám einkaréttar á póstþjónustu og trygging á lágmarkspóstþjónustu eða svokallaðrar alþjónustu.

Frumvarpið er í samræmi við efnisákvæði tilskipunar 2008/6/EB sem oft er nefnt þriðja pósttilskipunin. Það er þrennt sem ég tel rétt að komi fram í upphafi áður en ég hef umfjöllun um efnisákvæði frumvarpsins.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að þriðja póstilskipunin hefur ekki verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Engu að síður hafa öll aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu afnumið einkarétt ríkisins, að Íslandi undanskildu. Þannig afnam Noregur einkaréttinn árið 2016, svo dæmi sé tekið.

Í öðru lagi tel ég rétt að nefna í ljósi umræðu síðustu missera um stöðu Íslandspósts ohf., að frumvarpið fjallar ekki um rekstur fyrirtækisins Íslandspósts ohf.

Í þriðja og síðasta lagi vil ég vekja athygli á því að rekstrarumhverfi póstþjónustu hefur breyst talsvert á undanförnum árum. Almennum bréfasendingum hefur fækkað umtalsvert. Þannig hafa bréfasendingar innan einkaréttar farið úr tæplega 60 milljónum árið 2008 og niður í rúmlega 20 milljón bréf árið 2017 og fækkar hratt að óbreyttu. Hluti þróunarinnar fram til þessa og líkleg áframhaldandi fækkun bréfa á sér eðlilegar og að flestu leyti jákvæðar orsakir. Þannig hefur breytt samskiptatækni og samskiptamáti fært upplýsingagjöf í auknum mæli af prentmiðlum yfir á stafræna miðla. Á þetta ekki síst við um hefðbundin bréf undir 50 grömmum. Tölvupóstur, upplýsingagáttir á netinu, samfélagsmiðlar og fleira hafa fyrir löngu leyst af hólmi hin hefðbundnu prentuðu eða handskrifuðu bréf.

Ein af forsendum átaksverkefnisins Ísland ljóstengt þar sem ríkið styrkir ljósleiðaravæðingu í dreifbýli sveitarfélaga um allt land er að bæta fjarskipti einstaklinga og fyrirtækja utan þéttbýlis. Þannig næst að jafna aðgengi landsmanna að upplýsingasamfélaginu og um leið að hvers konar stafrænni þjónustu. Á það einnig við um aðgengi að stafrænum upplýsingum sem áður voru aðeins aðgengilegar með hefðbundnum pósti. Stefnt er að undirritun síðustu samninga við sveitarfélög á grundvelli Íslands ljóstengds í ársbyrjun 2020 og mun ríkið hafa skuldbundið allt að 3,1 milljarði króna í verkefnið á móti sambærilegu eða hærra samanlögðu framlagi sveitarfélaga, notenda, fjarskiptafyrirtækja, eftir atvikum.

Með bættum fjarskiptum og samgöngum hefur á undanförnum árum dregið úr mikilvægi póstþjónustu hér á landi, sér í lagi hvað varðar dreifingu á hefðbundnum bréfum, svo sem útsendingu á reikningum, launaseðlum og öðru slíku. Með tilkomu rafrænna samskiptalausna gegnir póstþjónusta því ekki sama hlutverki og áður. Þó vil ég taka skýrt fram að eigi að síður gegnir póstþjónusta enn mikilvægu hlutverki, ekki síst fyrir atvinnulífið, og er hún og verður nauðsynlegur þáttur í verslun á netinu.

Virðulegi forseti. Ég tel rétt að reifa helstu atriði frumvarpsins. Í I. kafla þess er gerð grein fyrir markmiðum frumvarpsins, gildissviði og orðskýringum. Lagt er til að markmið frumvarpsins sé að stuðla að hagkvæmari, virkri og áreiðanlegri póstþjónustu um land allt og til og frá landinu, m.a. með því að tryggja notendum aðgang að alþjónustu eins og hún er skilgreind á hverjum tíma og með því að stuðla að samkeppni á markaði fyrir póstþjónustu.

Í II. kafla frumvarpsins eru ákvæði er lúta að almennri heimild til að veita póstþjónustu. Gert er ráð fyrir að rekstur póstþjónustu í atvinnuskyni verði ekki leyfisskyld starfsemi hér á landi, svo sem verið hefur, heldur skráningarskyld starfsemi. Þannig munu lögaðilar sem hafa staðfestu innan Evrópska efnahagssvæðisins eða í aðildarríkjum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa almenna heimild til veitingar póstþjónustu hér á landi og til og frá landinu, að uppfylltum skilyrðum ákvæða frumvarpsins. Almenn heimild felur í sér réttindi til að starfrækja póstþjónustu samkvæmt ákvæðum frumvarpsins og reglna sem settar eru samkvæmt þeim. Skilyrði almennra heimilda eru þannig úr garði gerð að þau eiga ekki að vera hamlandi eða koma í veg fyrir að aðilar veiti þjónustuna.

Í III. kafla frumvarpsins er gerð grein fyrir alþjónustu. Alþjónusta hefur verið skilgreind sem ákveðin lágmarksþjónusta sem allir notendur póstþjónustu hér á landi eiga rétt á, óháð staðsetningu og á viðráðanlegu verði. Alþjónusta nær bæði til póstsendinga innan lands og til annarra landa. Í frumvarpinu er lagt til að samsvarandi þjónusta skuli standa til boða notendum sem búa við sambærilegar aðstæður og alþjónusta skuli á hverjum tíma að taka mið af tækni- og samfélagsþróun, hagrænum þáttum og þörfum notenda. Í alþjónustu felst aðgangur að afgreiðslustað og póstkössum. Afgreiðslustaður getur til að mynda verið póstbifreið, svo dæmi sé tekið.

Lagt er til er að alþjónusta nái til póstþjónusta vegna bréfa, allt að tveimur kílóum, pakka allt að 10 kílóum innan lands en 20 kíló milli landa, og sendingar fyrir blinda og sjónskerta, að tveimur kílóum. Ekki er gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi við útburð í fyrstu frá því sem nú er og er áfram miðað við útburð tvo virka daga í viku. Þá felst í alþjónustu skylda til að tryggja að póstkassar sem falla undir alþjónustu séu tæmdir a.m.k. tvisvar í viku eða losun sé í samræmi við fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði, að teknu tilliti til eftirspurnar eftir þjónustunni.

Við val á þjónustuveitanda sem skylt er að veita alþjónustu getur ráðherra farið þrjár leiðir samkvæmt frumvarpinu. Í fyrsta lagi með samningi við tiltekinn póstrekanda með almenna heimild, í öðru lagi með útnefningu póstrekanda eða í þriðja lagi með útboði. Það liggur fyrir að útboð er ekki vænlegt strax verði frumvarpið að lögum og líklegt þykir að samningaleiðin verði reynd áður en gripið verði til útnefningar.

Í frumvarpinu er byggt á því að ákjósanlegast sé að alþjónusta verði einfaldlega veitt á markaðslegum forsendum. Ef alþjónustuveitandi telur að veiting alþjónustu feli í sér byrði getur hann farið þess á leit að fá tapið bætt úr ríkissjóði. Um þetta er fjallað ítarlega í frumvarpinu og byggt á samevrópskum reglum við útreikning á því sem kallað er alþjónustubyrði. Í köflum IV og V er fjallað um aðgang að dreifikerfi og nauðsynlegri aðstöðu, frímerki og gjaldmerki, póstnúmeraskrá, viðskiptaskilmála, gjaldskrár og bókhald alþjónustuveitanda. Ég tel ekki þörf á því að fara hér nánar í efni kaflanna.

Rétt þykir hins vegar, virðulegur forseti, að staldra aðeins við VI. kafla frumvarpsins sem fjallar um kröfur um þjónustu og gæði. Í kaflanum er að finna fjölmörg ákvæði, svo sem um gæðakröfur, staðla, öryggi póstsendinga, póstleynd og fleira. Þar er einnig að finna ákvæði um óumbeðnar fjöldasendingar, sem er nýmæli. Landsmenn sumir hverjir hafa í gegnum tíðina merkt bréfakassa eða bréfalúgur sínar með tilkynningu um að þeir afþakki fjölpósta án þess að póstrekendum hafi verið skylt að virða merkingar sem slíkar. Í frumvarpi þessu er lagt til að bætt verði úr því. Í frumvarpinu er lagt til að póstrekendum verði skylt að virða merkingar notenda sem kveða á um að viðkomandi viðtakandi óski ekki eftir óumbeðnum fjöldasendingum, svo sem fjölpósti, fríblöðum eða almennu kynningarefni frá fyrirtækjum. Þetta gildir þó ekki um tilkynningar veitufyrirtækja þar sem verið er að tilkynna tímabundið rof á þjónustu vegna framkvæmda og því um líkt. Þá gildir þetta ekki um kynningarefni vegna kosninga á vegum stjórnvalda, tilkynningar sveitarfélaga til íbúa sinna og tilkynningar stjórnvalda sem varða almannahag og almannaöryggi. Gert er ráð fyrir að póstrekendur haldi skrá yfir þá sem vilja ekki fjöldasendingar svo sem verið hefur.

Önnur ákvæði frumvarpsins sem finna má í kafla VII, um meðferð kvartana og skaðabætur, og kafla VIII, um ýmis ákvæði, verður að telja hefðbundin. Ég vil hins vegar vekja athygli á reglugerðarákvæði frumvarpsins sem er ítarlegt. Þar er m.a. lagt til að ráðherra verði heimilt að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins nr. 2018/644, um pakkasendingar yfir landamæri, í íslenskan rétt. Lagt er til að það verði gert með reglugerð þegar reglugerð Evrópusambandsins hefur verið innleidd inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Hliðstæð innleiðingaraðferð var notuð þegar svokallaðar reikireglugerðir Evrópusambandsins voru innleiddar í íslenskan rétt, samanber 2. mgr. 35. gr. fjarskiptalaga.

Að lokum er rétt að vekja athygli á gildistökuákvæði frumvarpsins en gert er ráð fyrir að frumvarpið taki gildi 1. janúar 2020, verði það að lögum.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins í stórum dráttum og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.