149. löggjafarþing — 27. fundur,  6. nóv. 2018.

almenn hegningarlög.

15. mál
[18:03]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hittir í þessu andsvari eflaust á þann þingmann Pírata sem er með minnstu tölvukunnáttuna. [Hlátur í þingsalnum.] Þó þekki ég alveg ágætlega til miðað við ýmsa hv. þingmenn Miðflokksins og get alla vega sagt að það eru til lög sem ná yfir sölu fíkniefna á internetinu. Það er einfaldlega bannað að selja fíkniefni á Íslandi. Það eina sem þarf er vilji dómsmálaráðherra til að taka nákvæmlega á því máli. Hún gæti alveg forgangsraðað til þess, hæstv. ráðherra, ef hún hefði löngun til þess. Ég veit ekki betur en að á fjárlögum í ár séu 80 milljónir veittar í að takast á við einhvers konar óskilgreinda skipulagða brotastarfsemi, en sérstaklega fíkniefnainnflutning. Það mætti örugglega taka 10 milljónir og henda þeim í einhverja spjallhópa á internetinu sem selja fíkniefni, ef hæstv. dómsmálaráðherra lysti.

Eins og ég segi: Það eru lög í landinu sem banna sölu á fíkniefnum. Ég held að það þurfi ekkert að breyta þeim til að taka á þessu ef það er forgangsröðun stjórnvalda hverju sinni. Og ég held að það þurfi engin sérstök lög til að ná utan um hvernig það er gert á internetinu frekar en annars staðar. Það þarf einfaldlega fjármagn og forgangsröðun mannafla og pólitískan vilja til þess að það sé gert.

Það er vissulega mjög erfitt að tækla þetta, vegna þess að þegar ein síða er tekin niður þá sprettur önnur upp. Það er því miður eitt sem ég, sem frekar tölvuheftur einstaklingur innan Pírata, get sagt hv. þingmanni að það er mjög erfitt að henda reiður á svona síðum og það er mjög erfitt að loka þeim. Þess vegna virka slíkar aðgerðir sjaldnast. Ég tel reyndar að það sé miklu skynsamlegra að ráðast í forvarnir og skaðaminnkun en að eltast við vindmyllurnar í þessu tilfelli.