149. löggjafarþing — 28. fundur,  7. nóv. 2018.

orð þingmanns í störfum þingsins -- frumvarp um búvörulög.

[15:54]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ef það er tillaga hv. þm. Páls Magnússonar að forseti fari að ávíta hv. þingmenn fyrir það sem þeir láta falla á Facebook minni ég hv. þingmann á að það myndi væntanlega ganga yfir Sjálfstæðismenn líka og væri mjög áhugaverð beiting á þingsköpum, tel ég.

Varðandi það sem áður hefur verið nefnt í sambandi við þá hefð í störfum þingsins að ef menn ætla að gagnrýna þingmann þá veitir maður honum færi á því að gefa svar. Nú á dögunum kom hv. þm. Ásmundur Friðriksson upp í pontu og sagði heila línu af hlutum sem eru ekki réttir, eru ósannir. Ég kom upp í pontu og leiðrétti hann og fyrir það hafði ég haft samband við hv. þm. Ásmund Friðriksson og gefið honum færi á því að koma hingað og tala á eftir mér, sem hann gerði og endurtók reyndar eitthvað sem ég taldi mig hafa leiðrétt í fyrri ræðu, en það er svo sem önnur saga. Þetta er almenn kurteisi, finnst mér, og Píratar hafa unnið þannig. Mér finnst ekki alveg sanngjarnt að heyra frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að þeir ætli að fara að predika yfir þingmönnum Pírata um það hvernig eigi að koma fram við aðra þingmenn, (Forseti hringir.) vegna þess að við leyfum fólki að svara fyrir sig í það minnsta, hér sem og á Facebook, meðan ég man.