149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[14:50]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Við sem sitjum í þessum sal vitum að hv. þingmaður þekkir mjög vel til flugmála hér á landi. Hér er sérstaklega verið að ræða Alexandersflugvöll. Ég verð reyndar að viðurkenna að ég vissi ekki alveg hvar hann var fyrr en ég byrjaði hér á þingi og gat farið að lesa mér til um það; það er væntanlega ekki mjög almenn kunnátta hvar hann er. En ég óttast svolítið, með þingsályktunartillögu sem þessa sem ég efast ekki um að er skrifuð af góðum hug einum — ég hef líka heyrt sveitarstjórnarmenn tala fyrir þessu — að við kunnum að vera að dreifa áherslupunktunum okkar og smyrja þunnt yfir.

Út af því að hv. þingmaður var aðeins að skjóta á hvað þetta mundi kosta, sem er auðvitað gróft mat, langaði mig að heyra það frá hv. þingmanni hvar hann telur að áherslurnar okkar ættu að liggja í þessum efnum. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um mikilvægi varaflugvalla út frá öryggissjónarmiðum fyrst og fremst.

Fyrir allmörgum árum var ég á Ísafirði að heimsækja fyrirtæki og var veðurteppt, eins og gengur og gerist á þeim stað, það var ekki flogið heim. Ég fer að býsnast yfir þessu, hvort hægt sé að reka fyrirtæki undir þessum kringumstæðum. Þá sagði forstjórinn: Það sem skiptir okkur öllu máli er að vegirnir séu í lagi. Þá komumst við til Reykjavíkur og komumst til Keflavíkur og komumst úr landi. Það skiptir miklu meira máli að leggja áherslu á góðar og öruggar vegasamgöngur frekar en endilega öflugar flugsamgöngur út um allt land, þegar við þurfum að forgangsraða og velja annað hvort.

Mig langaði að heyra frá hv. þingmanni, hvar hann telur að áherslur okkar ættu að liggja í þessu samhengi.