149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

34. mál
[15:03]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurninguna. Varðandi tímaramma á skýrslunni, ég held að væri eðlilegt að gefa þessu fram a.m.k. í apríl, maí þannig að menn geti unnið að slíku og safnað gögnum, ef það á að vera einhver ákveðin tímasetning með það í tillögunni.

Öryggisflugvöllur. Það er kannski ekki hugtak sem menn hafa notað um flugvelli. Við erum með varaflugvelli. Síðan geturðu verið með varaflugvelli samanber flugvöllinn á Egilsstöðum með sína 2.000 metra og með burðargetu til að bera þotur og mikið notaður sem slíkur. Hann er óstjórnaður. Það er alveg hægt að vera með varaflugvellina óstjórnaða. Það er minni traffík á þeim og tekur kannski meiri tíma að ná mörgum vélum niður á skömmum tíma, ef maður segir þetta með einföldum hætti, á slíkum velli en á stjórnuðum velli. Þar geta vélarnar komið þéttar inn, skulum við segja, eins og kom í ljós í apríl eins og þekkt er orðið. Þessi völlur sinnir sínu hlutverki mjög vel sem slíkur þannig að ég held að við séum ekki endilega tala um öryggisflugvelli í þessu. Þó að það skiljist kannski mjög vel í talmáli notum við ekki það orð þegar við ræðum almennt um flugvelli, það er a.m.k. ákveðið nýyrði fyrir mér, svo það sé líka ljóst.

Ég á ekki von á því að óstjórnuðum varaflugvöllum muni fjölga mikið. Það er líka svo gríðarlegur munur á burðargildi og burðargetu vallanna, það er ákveðin skilgreining sem þar fer fram. Þá þarf að leggja flugvellina til að þola ákveðnar þyngdir og annað, slíkir útreikningar. Það er töluvert frá því sem við erum með. Mikið af flugvöllum í dag eru kannski miðaðir við þyngd á Fokker. 20 eða 25 tonna vél tekur 50 farþega, og þá miðast burðargeta og lengd brauta og allt við það. En svo er það allt annar flokkur þegar við erum komin með 150, 200, 250 manna þotur.