149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:28]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í garð þessa frumvarps. (BN: Það er ekkert lítið.) Ég get fullvissað þingmanninn um að sem gamall innheimtumaður ríkissjóðs kann ég muninn á vörslusköttum og sköttum sem eru álagðir. Það fer hins vegar ekki hjá því að það er nokkuð víst, samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir, og blasir í sjálfu sér við mjög víða þar sem maður fer um, að menn eru, margir hverjir, í þeim bransa að stofna til nýrra fyrirtækja þegar þau sem þeir skilja við í þroti hafa ekki lengur andrými. Það kann vel að vera — og jú, auðvitað er það refsivert að skila ekki vörslusköttum.

Ég man ekki í fljótu bragði — nú leiðréttir hv. þingmaðurinn mig örugglega, annaðhvort í andsvari eða þá í ræðu sinni á eftir — eftir mjög mörgum aðilum sem hafa verið dæmdir til refsingar undanfarið fyrir að skila ekki vörslusköttum. Nema þeir hafi þá verið því stórtækari. Það er ekki refsigleði sem býr að baki frumvarpinu. Það sem býr að baki því er að reyna að koma í veg fyrir að aðilum sem hafa sýnt þá háttsemi af sér að skilja fyrirtæki eftir fyrirtæki í vanskilum, bæði við opinbera aðila og aðra lögaðila, sé settur stóllinn fyrir dyrnar að því leyti til að þeim sé gert erfiðara að stofna til nýrra fyrirtækja.

Það kann vel að vera að 99% séu þegar farin en það er meiri gleði yfir einum réttlátum sem snýr aftur en 99 ranglátum. Og þetta 1%, samkvæmt þeim tölum sem ég las hér áðan, eru líka peningar.