149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[17:56]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara segja það að ég styð þetta mál. Mig langar að spyrja hv. þm. Óla Björn Kárason aðeins betur út í þetta og kannski er spurning mín frekar formuð með rökstuðningi gegn rökum hv. þingmanns.

Fyrst aðeins um það sem við erum sammála um. Við erum sammála um mikilvægi viðskipta og mikilvægi þess að fólk geti stofnað fyrirtæki. Það er algerlega eðlilegt að fyrirtæki fari á hausinn. Einkahlutafélagsfyrirkomulagið og hlutafélagsfyrirkomulagið er beinlínis hannað til þess að fólk geti farið á hausinn og samt sem áður reynt aftur. Það er beinlínis hannað til þess. Mér finnst það gott. Mér finnst það mikilvægt og mér finnst það vera eitt af því mikilvægasta sem þarf að vera til staðar til þess að nýsköpun t.d. geti átt sér stað. Ég held að við hv. þingmaður séum hjartanlega sammála um það. Ég er sammála því að það eigi að vera auðveldara að stofna hlutafélög og einkahlutafélög sérstaklega eins og hv. þm. Smári McCarthy hefur talað mikið um og eins og hv. þm. Óli Björn Kárason nefndi áðan.

Mér finnst eins og hv. þingmaður láti eins og þetta mál sé eitthvað annað en það er. Það er ekki refsing í þessu máli. Hann nefndi sérstaklega í seinna svari sínu að þetta væri eins og að setja tíu menn í fangelsi til að ná einum sekum. Ég skil líkinguna en dramatíkin finnst mér allt of mikil. Það er ekki talað um neinar refsingar. Það er talað um tvö fyrirtæki yfir þriggja ára tímabil og það er ekki eins og að þetta þriggja ára tímabil verði eilífð heldur linnir kvöðinni þegar það er orðið eitt fyrirtæki á síðustu þremur árum. Það þyrfti að meðaltali að fara með fyrirtæki á hausinn á 18 mánaða fresti tvisvar í röð til þess að viðkomandi myndi ekki getað stofnað einkahlutafélag eða hlutafélag. Hann gæti það ekki fyrr en nægur tími væri runninn til að fyrra félagið hefði ekki farið á hausinn síðustu þrjú ár. Mér finnst þetta mjög milt ákvæði, það er í raun og veru eins milt og það getur hugsast eins og ég sé það.

Þess vegna er ég hlynntur þessu frumvarpi jafnvel þótt ég sé líka sammála hv. þingmanni um mikilvægi einkahlutafélagsins. Ég er bara ekki sammála því að hér sé of mikið grafið undan möguleikum fólks til að stofna einkahlutafélag (Forseti hringir.)til að ná þeim markmiðum sem slíku félagsformi er ætlað að ná. (Forseti hringir.) Ég ætla að fara aðeins út í stjórnarskrána í seinna andsvari.