149. löggjafarþing — 29. fundur,  8. nóv. 2018.

hlutafélög og einkahlutafélög.

38. mál
[18:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gott og mikilvægt að hv. þingmaður hafi skýrt hvernig hann skilji orðið refsing vegna þess að ef það er ekki útskýrt þá myndi ég halda að þarna væri sektarákvæðið eða fangelsisákvæði eða eitthvað slíkt. Svo er auðvitað ekki en fyrst að hv. þingmaður nefnir að hann kalli það refsingu þegar menn eru sviptir stjórnarskrárvörðum rétti (Gripið fram í.) þegar þeir hafa ekki brotið neitt af sér, þá get ég alveg tekið undir það, alla vega undir flestum kringumstæðum, ef ekki öllum. En hér er ekki um að ræða sviptingu á stjórnarskrárvörðum rétti og það hentar mér ágætlega að fara út í það efni.

Það eru tvær greinar í stjórnarskrá sem ég fæ séð að eigi við þetta. Önnur þeirra er um félagafrelsið, í 74. gr. stjórnarskrárinnar, og hitt er atvinnufrelsi sem er í 75. gr. Mig langar að lesa hana, með leyfi forseta:

„Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess.“

Ef þetta er ekki nóg þá vil ég einnig benda á að einkahlutafélagsformið og hlutafélagsformið er ekki í eðli sínu atvinnugrein. Það er verkfæri til þess að stunda atvinnu. Það er ekkert sem meinar mönnum að stunda sína atvinnu án þess að gera það með stofnun einkahlutafélags. Menn geta stundað atvinnustarfsemi ýmist á eigin kennitölu eða í vinnu fyrir annan eða hvað eina. Það þarf ekki þetta tiltekna félagsform til þess.

Fyrir utan það er forsenda þessa frumvarps nákvæmlega almannahagsmunir og engin önnur. Það er engin önnur forsenda en almannahagsmunir. Ég tók það sérstaklega fram sjálfur. Ég skil mætavel mikilvægi einkahlutafélagsformsins í nýsköpun enda kem ég úr hugbúnaðargeiranum sjálfur. Á sjálfur fyrirtæki, einkahlutafélag, og get alveg ímyndað mér það að setja félag á hausinn, en þegar kemur að því að setja tvö félög á hausinn á þremur árum þá þætti mér alveg sanngjarnt og eðlilegt og hreinlega skynsamlegt fyrir sjálfan mig að (Forseti hringir.) bíða aðeins með það að stofna næsta þar til ég væri fyrsta lagi kominn með aðeins betra plan. Í öðru lagi þætti mér það afskaplega lítil fórn ef markmiðið er að halda fyrirtækjunum gangandi til að byrja með gagnvart þessum almannahagsmunir sem hér er stefnt að því að vernda.