149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

aðgerðir gegn skattsvikum.

[15:39]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er þannig með skattkerfið og skilvirkni þess að það er í sjálfu sér viðvarandi verkefni að gæta að því að við náum settum markmiðum. En hér er komið inn á skýrslu sem skilað var fyrir þó nokkru síðan og rakin er til starfshóps sem settur var á laggirnar snemma árs 2017 og nokkur atriði nefnd.

Varðandi virðisaukaskattinn og hvort við ættum að ganga lengra með tillögur í vaski komu fram tillögur á síðasta sumri um að þrengja bilið milli þrepanna og auka með því skilvirkni í virðisaukaskattskerfinu. Við höfum í millitíðinni séð miklar breytingar á starfsumhverfi í ferðaþjónustu, einkum með sveiflum í gengi og töluvert miklum launahækkunum. Og nú eru til skoðunar aðrar leiðir í því efni.

En segja má að verkefninu varðandi þéttingu virðisaukaskattskerfisins sé ekki lokið. Sú vinna heldur áfram í fjármálaráðuneytinu. Það væru þá einkum þeir geirar sem eru alfarið undanþegnir virðisaukaskatti sem kæmu þar til skoðunar. En ég verð að halda því til haga að við höfum gert talsverðar breytingar til þéttingar á virðisaukaskattskerfinu á undanförnum árum.

Varðandi hæfi til að stofna félög og það sem snýr að félagaréttinum í heild sinni verður það að vera til skoðunar í öðrum ráðuneytum. Við höfum verið að skoða það sérstaklega sem snýr að keðjuábyrgðinni. Það er sömuleiðis mál sem tengist kennitöluflakki og bæði þessi mál reyndar, með félögin og keðjuábyrgðina. Við höfum rætt það áður í þinginu. Síðan er alltaf matsatriði með reiðuféð. Þessi tillaga kom fram, hún er ekki til skoðunar í fjármálaráðuneytinu í dag og er ágætt að rifja upp (Forseti hringir.) hversu mikið 5.000 kr. hafa rýrnað í raun og veru frá því að þær voru teknar upp en 10.000 kr. seðillinn er sá nýjasti og ekki mjög hár í alþjóðlegum samanburði.