149. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2018.

eignarhald á bújörðum.

[16:04]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegur forseti. Það mál sem er til umfjöllunar byggir á verki sem þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði fólk til þann 16. júní 2017. Þá setti þáverandi ráðherra fimm manna starfshóp á laggirnar sem átti að endurskoða eignarhald á bújörðum. Hópnum var stýrt af ráðuneytisstjóra atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, en auk hans áttu sæti fulltrúar Bændasamtakanna, dómsmálaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, auk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Ég lagði þessa skýrslu fram á vettvangi ríkisstjórnar og ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að málefni fasteigna og jarða snerta mörg ráðuneyti. Í kjölfarið á umræðunni sem þar átti sér stað var ákveðið á vegum forsætisráðherra að skipa starfshóp til að leiða sameiginlega vinnu ráðuneytanna, eins og kom raunar fram í frétt frá forsætisráðuneytinu 8. október sl.

Meginmarkmið þeirrar vinnu verður að meta lögmæti mismunandi leiða til að setja almennar takmarkanir á stærð landareigna og/eða fjölda fasteigna sem einn og sami aðilinn, sem og tengdir aðilar, geti haft afnotarétt af. Jafnframt á það að verða hlutverk starfshópsins að skoða mögulegar leiðir til að sporna gegn því að land í landbúnaðarafnotum sé tekið til annarra nota. Markmið þeirrar vinnu verður m.a. að leita leiða til að tryggja, ef ekki telst grundvöllur fyrir áframhaldandi landbúnaðarafnotum, að búseta á jörð haldist enda þótt hefðbundinn landbúnaðarafnot leggist af. Tilgangur með slíku verklagi verður að sporna gegn íbúafækkun og viðhalda byggð á viðkomandi svæði.

Í starfshópi forsætisráðuneytisins eiga sæti fulltrúar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, dómsmálaráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, auk fulltrúa forsætisráðherra sem mun stýra vinnu þeirri sem hér er gerð að umtalsefni.

Skýrslan sem mér barst reifar helstu lagabreytingar sem mögulegt er að ráðast í til að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Til hliðsjónar í vinnu sinni hafði starfshópurinn eldri og núgildandi ábúðar- og jarðalög, löggjöf í Danmörku og Noregi og skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-rétti til hliðsjónar.

Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að fært væri að ráðast í tilgreindar lagabreytingar í samræmi við yfirlýst markmið um að viðhalda ræktanlegu landbúnaðarlandi og búsetu í sveitum landsins. Lagabreytingarnar gætu verið ein eða jafnvel fleiri saman til að ná fyrrgreindu markmiði.

Skýrslan tekur einnig til umfjöllunar einföldun stjórnsýslu tengda landskiptum og lausn lands úr landbúnaðarnotum, kosti og galla þess og mögulegar leiðir. Það er álit starfshópsins að brýnt sé að grípa til aðgerða, annaðhvort með því að einfalda stjórnsýsluframkvæmd eða styðja við þetta hlutverk ráðherrans. Skýrslan verður lögð til grundvallar í þeirri vinnu sem ég gat um áðan á vegum forsætisráðuneytisins. Markmið okkar á að vera að viðhalda ræktanlegu landi til matvælaframleiðslu og að sem flestar bújarðir landsins verði nýttar til hagsbóta fyrir einstök svæði og landið í heild.

Það er álit starfshópsins að ekki sé útilokað að koma á sérstökum úrræðum tengdum landsréttindum á borð við vatns- og veiðiréttindi. Hins vegar ber að hafa í huga að það hefur verið meginstefnan að undanskilja ekki lax- og silungsréttindi né aðrar auðlindir frá bújörðum þegar þær skipta um eigendur. Þó er rétt að geta þess að þegar ríkið selur jarðir í sinni eigu hefur venjan um alllangt skeið verið sú að jarðhitaréttindi eru skilin frá og haldast áfram í opinberri eigu.

Það er ýmislegt sem mælir gegn fortakslausu banni við jarðakaupum útlendinga. Hins vegar á slíkt eignarhald á stórum löndum ekki að vera auðsótt og því tilefni til að endurskoða og mögulega herða regluverk hvað það varðar. En á þeirri vegferð er mikilvægt að við virðum alþjóðlegar skuldbindingar okkar.

Í mínum huga er markmið okkar skýrt. Það á fyrst og fremst að snúast um að viðhalda ræktanlegu landi til matvælaframleiðslu og ekki síður að sem flestar bújarðir landsins verði nýttar til hagsbóta fyrir einstök svæði og landið í heild. Í mínum huga á það að verða leiðarljós þeirrar vinnu sem fram undan er.