149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[12:53]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Aðeins að hjúkrunarheimilunum og þeim málaflokkum. Hv. þingmaður leggur til breytingartillögu þar að mig minnir upp á 1 milljarð eða eitthvað þess háttar. Mig langar að biðja þingmanninn að fara aðeins nánar út í það hvort þarna er fyrst og fremst um að ræða hugmyndir að hækkun á rekstri eða hvort hann er að tala um hugmyndir að hækkun á framlögum vegna bygginga.

Það liggur fyrir að þeir fjármunir sem höfðu verið áætlaðar á næsta ári til að byggja upp fleiri hjúkrunarrými munu ekki nýtast. Þá er hann væntanlega að tala um að allir þeir fjármunir sem hann talar um aukninguna á fari til rekstrar. Eða er ekki svo? Mig langar líka að heyra aðeins í þingmanninum um hvort hann telji ekki ástæðu til að bíða eftir endurskoðun á rekstrargrunni heimilanna eða hvort hann vilji bara ákveða þetta svona fyrir fram og gefa sér að þetta sé það sem þurfi áður en lengra er haldið.