149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[18:05]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar andsvarið og mjög ánægjulegt samstarf í fjárlaganefndinni það sem af er. Það hefur verið vel haldið utan um þá vinnu af hálfu hv. þingmanns og samstarfið ánægjulegt.

Það sem ég er í raun og veru að segja er að megingagnrýni á ríkisfjármálin í hagsveiflu í gegnum árin og áratugina hefur einfaldlega verið þessi: Hér eyðum við þeim peningum sem eru til ráðstöfunar hverju sinni. Við sýnum ekki ráðdeild eða fyrirhyggju. Við pössum ekki upp á það af því að tekjur ríkissjóðs aukast mjög í uppsveiflu. Þegar einkaneyslan kemst á fullan damp mætti bókstaflega segja að fjármagni rigndi yfir ríkissjóð og það er mjög auðvelt að detta í þann gír að stórauka útgjöld á öllum sviðum. Við slík skilyrði þarf sterk bein og skila þarf mjög myndarlegum afgangi til að hafa svigrúm til að tryggja grunnþjónustuna í gegnum niðursveifluna.

Það hefur því miður allt of oft gerst í ríkisfjármálum okkar að við eyðum öllum peningunum í uppsveiflunni og svo þegar kemur í niðursveifluna þurfum við að gera hvort tveggja, hækka skatta til að fjármagna lágmarksrekstur ríkissjóðs og skerða þjónustuna, skerða heilbrigðiskerfið okkar, skerða bæturnar okkar og svo mætti áfram telja. Það er þetta sem við þurfum að komast út úr. Þetta eru hin sveiflumagnandi áhrif ríkisfjármálanna.

Það var megintilgangurinn í mínum huga með lögunum um opinber fjármál að reyna að tryggja að ríkisfjármálin væru a.m.k. sveifluhlutlaus, helst eitthvað sveiflujafnandi. Það hefði auðvitað þýtt að við hefðum þurft að vera með meiri afgang á yfirstandandi ári og næsta ári, miðað við spár í það minnsta. Svo þarf að taka meðvitaða stefnu um að draga úr afkomunni ef við teljum að það sé að kólna. Það hefur ekki verið gert (Forseti hringir.) hér. Þetta er megininntakið í gagnrýni minni á það hvernig við vinnum eftir lofinu.