149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:12]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður er í þeim starfshópi sem er að reyna að komast að einhvers konar samkomulagi um vonandi ekki bara einhvern einn þátt heldur fleiri, mér hefur alla vega skilist það. Ég tel mikilvægt að Alþingi eða að ég sem þingmaður sé ekki að hlutast til um það hver niðurstaðan verði.

Það skiptir máli að það fólk sem málið snýr að, sem þarf að búa við þetta kerfi, eins og hv. þingmaður þekkir, og báðir þeir þingmenn sem sitja í þessari nefnd fyrir hönd Alþingis þekkja, komi fram með einhverjar tillögur sem við þurfum hugsanlega að innleiða í einhverjum áföngum. Mér finnst það ekki ósennilegt því að þetta er stór hópur.

En ég tek svo sannarlega undir með hv. þingmanni að það er mikilvægt að þeir öryrkjar sem geta unnið komist út á vinnumarkaðinn. Það er afar mikilvægt, án þess að það hafi þau áhrif sem kerfið hefur vegna þess hvernig það er í dag. Það er ömurlega letjandi, ég tek undir það.

Ég er ekki alveg jafn sannfærð um að ríkið kom út í plús vegna þess að stór hluti öryrkja getur ekkert unnið. Það er nokkuð sem við verðum að horfast í augu við. Það er margt fólk sem getur því miður ekki unnið sökum örorku og heilsu sinnar.