149. löggjafarþing — 32. fundur,  15. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[22:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef hlakkað dálítið til að tala um loftslagsmál og ég þakka hv. þingmanni fyrir að minnast á þau í ræðu sinni. Vissulega erum við með dálítið afstæðar stærðir hérna, 1‰ af heiminum er t.d. alls ekki lítið.

Víkjum aðeins að þessu risastóra verkefni, loftslagsmálunum. Við fengum kynningu í umhverfis- og samgöngunefnd þar sem okkur var tilkynnt að við náum ekki öðrum fasa Kyoto-bókunarinnar og þurfum jafnvel að greiða, í grófri áætlun sem við fengum, 12–20 milljarða á ári, en tölurnar voru mjög misvísandi. Þetta er það sem hægt var að skjóta á í nógu nákvæmri útlistun. Við þurfum að tækla milljón tonn. Þetta var kostnaðurinn fyrir 5.000 tonn fyrir árið 2030.

Nú erum við að fjármagna þessa aðgerðaáætlun sem fyrstu drög hafa komið út að og sú áætlun er ekki kostnaðarmetin eða árangursmetin. Aðgerðirnar eru ekki árangursmetnar. Við vitum ekki hvaða áhrif hver aðgerð hefur. Á þann hátt er dálítið erfitt að velja hvaða aðgerð á að fjármagna til að ná sem mestum árangri. Kannski vitum við eitthvað um það bil af því, en það er ekki komið fram enn þá, ekki fyrir okkur þingmenn, til að ákveða hversu mikið við eigum að fjármagna þennan málaflokk þegar við sjáum fram á kostnað upp á 12–20 milljarða eftir ekki svo langan tíma.

Mig langar því til að heyra frá hv. þingmanni um þá áskorun sem við stöndum frammi fyrir varðandi það að aðgerðaáætlun til loftslagsmála á að sjálfsögðu einmitt að vera árangursmetin og kostnaðarmetin, (Forseti hringir.) alveg nákvæmlega eins og fjárlög.