149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[16:05]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Tel ég að afnám krónu á móti krónu skerðingar sé allt sem til þarf til að aðstoða þetta fólk? Nei, en það er náttúrlega hluti af þessu. Eins og ég talaði um í ræðu minni er það vaxandi vandamál víðs vegar um heim, sérstaklega í hinum vestræna heimi, þegar fólk upplifir sig eitt. Það er þessi einmanaleiki, félagslega einangrun og vonleysi.

Ég tel að við þurfum að fara að byggja gólf undir þetta fólk. En með þessum skerðingum er þak sem fólk festist undir og kemst ekki upp úr. Þegar ég tala um að við þurfum að tryggja efnahagsleg réttindi þá snýr það að efnahagslegu frelsi. Hluti af því er að fólk upplifi að það hafi gólf til að standa á, eins konar öryggisnet sem grípur það, og að það hafi svo val um að fara á sínum hraða út á vinnumarkaðinn og prófa sig áfram. Ef illa gengur veit fólk að það er eitthvert net til staðar til þess að grípa það. Það er öryggistilfinningin sem við þurfum að skapa fyrir þennan hóp, sem á augljóslega í erfiðleikum með að fóta sig í samfélaginu eins og það er í dag.

Þess vegna er svo ofboðslega mikilvægt að afnema þessa skerðingu. Með því að skapa traust umhverfi, öryggisnet fyrir þetta fólk gefur maður því tækifæri til að fara út í samfélagið á sínum eigin hraða, á sínum forsendum, prófa sig áfram, mistakast og vera ekki hrætt við að mistakast. Það skiptir gífurlega miklu máli fyrir andlega og líkamlega heilsu.

Varðandi húsnæðismálin. Ég er að brenna inni á tíma, ég kem að því í síðara andsvari.