149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:20]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við landsbyggðarþingmenn deilum draumum um öflugar byggðir. Það er alveg klárt mál. En ég er ekki viss um að það takist að uppfylla þá alla á fyrstu ellefu, tólf mánuðum ríkisstjórnarinnar.

Mig langar að benda á nokkrar staðreyndir varðandi byggðastefnu. Það er náttúrlega byggðaáætlunin sjálf, þessi metnaðarfulla byggðaáætlun sem á að vera fullfjármögnuð þegar þessi fjögur ár eru liðin. Núna í yfirstandandi fjárlögum er verið að auka í þrífösun rafmagns, að flýta ljósleiðaravæðingu, verið að bæta í þekkingar- og háskólasetur. Í flugmálunum er verið að bíða eftir því að ákveðin atriði komi fram til þess að koma inn í samgönguáætlun. Það er ekki þar með sagt að þetta þurfi að vera í fjárlögum fyrsta kastið. Og varðandi nýsköpun vil ég benda á að það er heill milljarður sem fer í styrki eða framlög til fyrirtækja sem vilja gagnast nýsköpun, þ.e. fjárfestingu. Þá er ekki verið að spyrja um í hvaða atvinnugreinum sú nýsköpun fer fram.

Þegar kemur að neikvæðum atriðum getum við vel bent á t.d. náttúrustofurnar sem eru ekki styrktar nægilega vel. Ég hef bent á það sjálfur. Það er auðvitað hægt að finna hluti sem maður vildi sjá betur gerða. Þegar kemur að samgöngumálunum og öllum 12.000 km sem eru undir í vegakerfinu og við sjáum 500 millj. kr. niðurskurð, má benda á að það er verið að auka um það, a.m.k., í heilbrigðismálin, bæði hjúkrunarrými og tækjakaup úti á landi. Þegar kemur að milljarða króna spurningunni, þetta eina prómill sem þessi fjárlög eru skert um miðað við upphaflegu tillöguna, er spurningin til hv. þingmanns hvort honum finnist það of mikil skerðing miðað við að bregðast við samdrætti í samfélaginu.