149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og deili áhuga og skoðunum á þessum þætti, sem eru rannsóknir, þróun og nýsköpun þegar kemur að matvælaframleiðslu.

Ég ætla að lesa upp úr áliti meiri hlutans, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur til að við undirbúning fjármálaáætlunar og næstu fjárlagagerðar verði hugað að sókn til aukinnar verðmætasköpunar í matvælaframleiðslu, m.a. með markvissu samstarfi þeirra stofnana ríkisins sem starfa á sviði landbúnaðar, matvælarannsókna og þróunar.“

Við deilum svo sannarlega skoðun hv. þingmanns sem hv. þingmaður gerði mjög vel grein fyrir í ræðu sinni. Ég vil ítreka það.

Hv. þingmaður kom jafnframt inn á það að við ættum að nýta sjóði á þessu sviði. Ég vek athygli á breytingartillögu sem kemur fram í nefndaráliti á bls. 33, þar sem gerð er tillaga um 30 millj. kr. tímabundið framlag til Landbúnaðarháskóla Íslands vegna aukinna rannsókna sem keyptar verða af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti einmitt í þessum tilgangi. Hv. þingmaður kom inn á það í ræðu sinni.

Það er mikilvægt að við samnýtum þekkingu, rannsóknarstofnanir, menntastofnanir, og tengjum þetta til að nýta auðlindir með sem skilvirkustum hætti um allt land í þessa veru. Það fé sem við látum í þetta starf á að speglast í fjárlögum og frumvarpi. Ég tel að klasamyndun sé svar.

Ég spyr hv. þingmann: Í þeim starfshópi sem hv. þingmaður tekur þátt í, hver er áherslan á klasastarf í þeim hópi?