149. löggjafarþing — 33. fundur,  19. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[20:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir ræðuna þar sem hann fór vítt og breitt yfir, aðallega yfir tillögur Samfylkingar og svolítið yfir muninn á vinstri og hægri. Allt í góðu með það.

Ég ætla að staldra við það þegar hv. þingmaður lætur liggja að því að fjárlaganefnd hafi legið yfir frumvarpinu með það í huga að taka af þeim sem minna mega sín. Ég verð að gera verulega athugasemd við það vegna þess að þetta er ljótur leikur. Þetta er skollaleikur í pólitík gagnvart hópi sem er ekkert ofsæll af sínu, sem er bara ekki við hæfi. Misskilningurinn fyrir þennan hóp, eða annan sem hefur ekki þær sömu forsendur og við, að liggja yfir tölum og forsendum og frumvarpi og bregðast við og taka við ráðstöfunum sem þarf að gera á svona frumvarpi, verður miklu verri en sá leikur sem mér virðist hv. þingmaður vera að leika með kollegum sínum í Samfylkingunni.

Það er látið að því liggja að bætur sem greiddar eru út mánaðarlega séu að lækka. Það verður að koma því á framfæri, og þess vegna kom ég hingað upp, að það er ekki að gerast. Frá því að frumvarpið var lagt fram við 1. umr. og núna í 2. umr. hafa forsendur efnahagsspár breyst þannig að þær munu hækka í samræmi við 69. gr. laga um almannatryggingar og bætur. Mikilvægt er að það liggi fyrir.

Síðan hefur engin önnur ríkisstjórn en hæstv. ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur stigið jafnsterk skref í að afnema vont krónu á móti krónu kerfi (Forseti hringir.) með því að naglfesta 4 milljarða fyrir þennan hóp.