149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

staða Íslandspósts.

[13:50]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Tilgangur þess að hafa einkarétt hafa menn haldið fram að sé sá að hann ætti að geta staðið undir alþjónustunni. Hann hefur augljóslega ekki gert það, enda hefur fjöldi bréfa farið úr 80 milljónum niður í 20 meðan dreifingin er hinn fasti kostnaður. Það þarf að fara á sömu svæði. Þess vegna hafa menn verið að fækka póstburðardögum. Nú eru bara tveir opinberir póstburðardagar á öllu Íslandi.

Hver greiðir þegar kostnaður við bréfasendingar hækkar stöðugt? Það eru auðvitað skattgreiðendur. Það er hægri vasinn og vinstri vasinn. Það skiptir auðvitað engu máli. Hvernig ætlar hv. þingmaður að tryggja að allir landsmenn sitji við sama borð og fái þjónustu ef ekki er farin þessi leið með alþjónustu? Enn og aftur og ég sagði það þrisvar sinnum þegar ég var að tala fyrir þessu máli í þinginu: Þetta er ekki innleiðing á Evróputilskipun. Póstpakkinn, ef við köllum hann svo, er ekki kominn inn í EES-samninginn. Við erum að gera þetta vegna þess að við teljum að það sé rétt skref að breyta markaðnum (Forseti hringir.) á nákvæmlega sama hátt og gert hefur verið í allri Evrópu. Við erum síðasta landið sem er með einkarétt.