149. löggjafarþing — 34. fundur,  20. nóv. 2018.

aukatekjur ríkissjóðs.

4. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sjálfur þannig þenkjandi að ég tel rétt að sá sem nýtir sér þjónustu greiði fyrir hana. Það á við þá þjónustu sem aukatekjur ríkissjóðs ná yfir. Ég er ekki að tala um menntakerfið, ég er ekki að tala um heilbrigðiskerfið eða neitt slíkt. Mér finnst ekki óeðlilegt að allur almenningur greiði t.d. raunkostnað við að gefa út vegabréf, raunkostnað við að skrá hlutafélag o.s.frv. Ég tel óeðlilegt að gjaldið sem rukkað er fyrir skráningu á hlutafélagi sé með einhverjum hætti niðurgreitt af öðrum skattgreiðendum. Ég hygg að hv. þingmaður sé sammála mér í því efni.

Það er hins vegar rétt að sú aðferðafræði að hækka bara yfir línuna miðað við vísitölu er vond. Henni þarf að breyta. Hún er eiginlega enn verri vegna þess að farið er svo langt aftur í tímann sem raun ber vitni, þ.e. eins og ég vék að í ræðu áðan hafa gjöldin verið óbreytt í átta ár. Á móti kemur hins vegar að á sama tíma hefur almenningur þó fengið að njóta hinna óbreyttu gjalda. Það er hið jákvæða.

En við þurfum líka að hafa í huga að það eru kannski fleiri og stærri atriði sem skipta íslenskt launafólk máli en akkúrat gjaldskrárhækkanir samkvæmt aukatekjulögum ríkissjóðs. Það eru önnur (Forseti hringir.) atriði og stærri en þetta sem skipta máli.