149. löggjafarþing — 35. fundur,  21. nóv. 2018.

fjárlög 2019.

1. mál
[19:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er aldrei of oft sagt úr þessum ræðustól hversu mikilvægt það er að hlúa að íslenskri tungu. Við býsnumst líka oft yfir því að íslenskum ungmennum sé tamara að beita ensku fyrir sig en íslensku. Íslensk ungmenni eru vön því að geta flett upp ókeypis öllu sem viðkemur enskri tungu; andheitum, samheitum, réttritun. Það er ekkert mál. Það er innbyggt í ritvinnsluforritin.

Hér er verið að veita heimild til þess að ganga til samninga um kaup á réttindum að íslenskri orðabók og eftir atvikum öðrum sambærilegum orðabókum og fela stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum að opna rafrænan aðgang að þeim öllum. Það er byltingarkennt skref, tel ég, til þess að auðvelda aðgang að þessum orðabókum ókeypis og mun sérstaklega bæta stöðu íslenskra ungmenna sem ekki eru von því að borga fyrir þjónustu á netinu af þessu tagi. Ég vildi vekja athygli á því. Ég vil óska ríkisstjórn og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra til hamingju með það. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)