149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

mál pólsks talmeinafræðings.

[11:00]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegur forseti. Í vikunni birtist í Fréttablaðinu grein þar sem sagt var frá raunum pólsks talmeinafræðings sem fær ekki leyfi til að starfa hér á landi. Í fréttinni er raunasaga hennar rakin. Hún sótti um leyfi, fékk það tímabundið og síðan endurnýjun með þeim skilyrðum að það kæmi staðfesting frá vinnuveitanda á íslenskukunnáttu, en engu slíku er til að dreifa. Kerfið gerir auðvitað ekki ráð fyrir öðru en að innflytjendur starfi undir íslenskum herrum sem geti vottað um íslenskukunnáttu þeirra. Í lok fréttar er tilvitnun í menntamálaráðherra. Hún er nú samúðin ein, sem er gott, en málið varðar samt stofnun sem heyrir undir heilbrigðisráðherra, landlækni.

Því miður er þessi saga ekki einsdæmi. Ég þekki fleiri svona dæmi þar sem kerfið, kerfið sem ráðherrann ber ábyrgð á, er alls ekki að hjálpa fólki að öðlast réttindi í samræmi við menntun sína. Eitt af því er t.d. þessi krafa um að umsækjendur þurfi að hafa íslenska kennitölu sem er alls ekki jafn rökrétt og kann að virðast.

Ég spyr ráðherrann: Finnst henni þetta í lagi? Finnst henni í lagi að kerfið sé að reyna að hindra fólk í að vinna við það sem það er menntað til? Eiga erlendir menntaðir talmeinafræðingar, næringarfræðingar og sálfræðingar að skúra og afgreiða á börum á meðan kerfið japlar á umsóknum þeirra? Finnst henni í lagi að gerð sé krafa um að vinnuveitandi, heilagur vinnuveitandi, veiti umsögn um tungumálakunnáttu og að gerð sé krafa um kennitölu, sem ég vil meina að sé brot á EES-samningnum? Ef henni finnst þetta ekki í lagi, ætlar þú þá að eiga spjallið við hæstv. menntamálaráðherra (Gripið fram í.) sem reglugerðin um veitingu starfsleyfis heyrir undir og ætla þær að sammælast um að breyta þessu?