149. löggjafarþing — 36. fundur,  22. nóv. 2018.

náttúruhamfaratrygging Íslands.

183. mál
[16:50]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að fjalla um þetta frumvarp og fagna því að það er komið fram. Hér er verið að fjalla um skýstróka, eðlilega, það varð tjón í sumar af völdum skýstróka í Skaftárhreppi sem kom öllum á óvart. Náttúruhamfaratrygging Íslands tekur ekki á því.

En það varð annað tjón á Vesturlandi í Hítárdal. Þar féll stór skriða í júlí sem olli miklu tjóni, þó ekki á byggingum en vissulega á landi og til að mynda á veiðiá. Það hefur orðið töluvert tjón á Hítará og hefur verið talað um að ef það ætti að koma ánni í fyrra horf þyrftu að fara fram framkvæmdir þar og moka allt að 350 þúsund rúmmetrum til hliðar til þess að hún yrði eins og hún var. En þetta tjón fellur ekki undir trygginguna vegna þess að það er ekki neitt brunabótamat á ánni sem slíkri.

Mig langar að benda á þetta og það væri kannski ástæða að skoða hvort hægt væri að smeygja þessu inn í frumvarpið, hvort hægt væri að skoða það. Mig langar líka til að spyrja fyrsta flutningsmann, hv. þm. Karl Gauta Hjaltason, hvort þetta hafi eitthvað verið skoðað.

Svæðið hefur verið skoðað og verið er að láta vinna verkfræðiskýrslu þar sem nauðsynlegar framkvæmdir verða metnar með tilliti til kostnaðar og ávinnings líka. En við erum kannski að horfa fram á breyttar aðstæður í veðurfarinu og loftslagsmálum. Nú eru t.d. aðstæður þarna undir eftirliti því það er von á jafnvel meiri skriðuföllum þarna, það er búið að skoða fjallið. Það er víst á fleiri stöðum eins og fyrir austan.

Mig langaði til að koma þessu að og vil hvetja flutningsmenn og nefndina til þess að skoða þetta því eins og segir í greinargerðinni tekur tryggingin til þess að bæta tjón vegna eldgosa, jarðskjálfta og skriðufalla, en það verður náttúrlega að vera eitthvert brunabótamat eða einhver verðmiði á því tjóni sem verður. En þarna getur verið ýmislegt undir sem getur talist verðmæti eins og ég var að nefna.

En ég ætla bara að fagna þessu frumvarpi og taka undir það því sannarlega er þetta eitthvað sem þarf að skoða. Og einnig vildi ég koma þessu að varðandi þessar veiðiár.