149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

um fundarstjórn.

[16:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta er það sem maður óttaðist þegar við vorum að semja siðareglurnar á síðasta eða þarsíðasta kjörtímabili, alla vega þegar ég var á þingi, áður en ég hætti á sínum tíma. Ég sagði: Ég myndi ekki vilja vera með á þeim siðareglum ef það yrði raunverulega þannig að forsætisnefnd sjálf væri að afgreiða mál um eigin félaga þegar tillögur eða kvartanir kæmu til þeirra um hvort þeir hefðu brotið siðareglurnar. Það myndi bjóða þeirri hættu heim að meiri hlutinn vildi ekki kjósa eða taka ákvarðanir um að félagar þeirra í stjórnarmeirihlutanum hefðu brotið af sér. Jafnframt setti það minni hlutann í þá rosalega hættu, minni hluta sem á að hafa eftirlit með meiri hlutanum, stjórnarmeirihlutanum, að siðareglur yrðu notaðar í krafti meiri hluta forsætisnefndar sem agavald gegn minni hlutanum.

Það eru agalegar kringumstæður sem nú hafa komið upp. Ég nefndi þetta í forsætisnefnd á sínum tíma, þegar við vorum að semja siðareglurnar. Við fengum siðareglunefnd en forsætisnefnd vildi ekki vísa því þangað. (Forseti hringir.) Það segir í siðareglunum að málsmeðferð eigi að vera óhlutdræg. Því var hafnað að því yrði vísað til siðareglunefndar til þess að tryggja að enginn vafi væri um slíkt.