149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Miðflokkurinn og Viðreisn eru mjög ólíkir flokkar að mörgu leyti og ekki síst hvað varðar gjaldtökuna. Við viljum markaðsleiðina. Við treystum markaðnum eða því að fara uppboðsleiðina, eins og sumir kalla hana. Hv. þingmaður nefndi ákveðna þætti, eins og tímabundna nýtingarsamninga, að greiða eigi auðlindagjöld og með einhverjum hætti um auðlindaákvæði í stjórnarskrá, og er að tala um fyrirsjáanleika fyrir greinina. Í frekar rólegu og yfirveguðu samtali ólíkra flokka skynjar maður þráð sem ekki var leitað eftir af hálfu ríkisstjórnarinnar; þráð sem hægt hefði verið að taka upp og nýta. Það hefði verið hægt að nota hann til að fá fólk að borðinu og segja: Allt í lagi, sjónarmið eru ólík en getum við rætt saman í mesta bróðerni, systralagi, og farið yfir ákveðna þætti varðandi tímabundnu samningana, að við komum okkur saman um auðlindagjöld og hugsanlega með einhverjum hætti uppbyggingarsjóð, innviðasjóð, fyrir landsbyggðina?

Ég er ekki að biðja hv. þingmann um að tala um Framsóknarflokkinn, alls ekki. En mér finnst miður að heyra hv. þingmenn Framsóknarflokksins afneita eigin tillögum þar sem reynt var að fara af stað með tímabundna samninga. Mig minnir að tillagan hafi verið til 23 ára, þannig að með einhverjum hætti hafa slíkar tillögur komið fram hjá Framsóknarflokknum, hjá Vinstri grænum, hjá eldri flokkum en Viðreisn og það er sá þráður sem mér finnst að ríkisstjórnin — það er synd að við skulum ekki hafa slíka ríkisstjórn — hefði átt að nýta til að hafa frumkvæði að því að leita sátta fyrir þessa grundvallaratvinnugrein, til þess að tryggja sameign þjóðarinnar en til þess líka að tryggja fyrirsjáanleika og stöðugleika til lengri tíma, ekki bara til skamms tíma eftir því hvernig pólitískir vindar blása heldur stöðugleika fyrir sjávarútveginn í heild sinni. Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að við reynum að nálgast málin þannig að við náum sátt um þá hluti. Ég fagna því að ólíkir flokkar geti fundið einhverja þræði í sameiginlega átt. Við eigum að nýta þann byr. Ég hvet ríkisstjórnina til þess að nýta sér það sem sagt hefur verið hér.