149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta ágæta svar. Það er áhugaverður punktur að hv. þingmaður nefndi að það væri splæst í nokkrar ágætisjöfnur í frumvarpinu. Ég tók líka eftir því að það er splæst í samtals þrjú gröf sem er líka alltaf gaman að sjá í frumvörpum, ég hef gaman af bæði jöfnum og gröfum eins og hv. þingmaður. En það vantaði samt grafið sem ég er svolítið að höggva eftir og sem skiptir kannski mestu máli í samhengi dreifingarinnar. Það er graf sem sýnir dreifinguna, þ.e. hvernig lækkunin dreifist á fyrirtæki eftir stærð, hvernig áætlað er að hvert fyrirtæki muni njóta góðs af.

Ef grafið væri algjörlega flatt, þá gott og vel, þá getum við rætt það. Ef meginþorri lækkunarinnar færi til minnstu fyrirtækjanna, gott og vel, þá væri það í samræmi við þá yfirlýstu pólitísku stefnu sem hefur komið margsinnis fram. En ef það er eins og hefur verið, að obbinn af þessari dreifingu fer allur til örfárra fyrirtækja, að þetta sé hin fræga Pareto-dreifing, þá náum við ekki þeim pólitísku markmiðum sem er margsinnis búið að segja að séu sett af hálfu ríkisstjórnarinnar. Þá erum við í einhverju móðukenndu limbói þar sem er ekkert samhengi milli þess sem er sagt og þess sem raunveruleikinn er. Mér finnst þetta mjög sérkennilegt og ég veit að hv. þingmaður, verandi mikill nákvæmnismaður, hefur sennilega jafn mikla óbeit og ég á því að þetta sé svona óljóst.